Fórnar­kostnaðurinn

Þorsteinn Pálsson

Ívið­tali við Ríkis­út­varpið fyrir réttri viku sagði Svan­dís Svavars­dóttir mat­væla­ráð­herra að traust for­sætis­ráð­herra á fjár­mála­ráð­herra myndi koma ríkis­stjórninni í gegnum banka­sölu­stríðið.

Þarna hitti mat­væla­ráð­herra naglann á höfuðið. Eina leiðin fyrir for­sætis­ráð­herra til að halda stjórninni saman í þessari krísu var að víkja til hliðar pólitískum gildum og lýsa yfir skil­yrðis­lausu trausti.

Ó­tak­markað traust án tengsla við pólitísk gildi mun tryggja fram­hald stjórnar­sam­starfsins. Hin hliðin á því dæmi er fórnar­kostnaðurinn.

For­menn í bjarg­hring for­sætis­ráð­herra

Engum vafa er undir­orpið að í byrjun fórnar VG mál­efna­lega miklu með þessum leik um traust án skil­yrða. Á­stæðan er sú að þær á­kvarðanir, sem ríkis­stjórnin tók sjálf um sölu­að­ferðina, eru lengst frá pólitískri í­mynd VG.

Hitt er að með þessu hefur for­maður VG treyst á­hrifa­vald sitt. Mál­efna­leg sér­staða hefur gufað upp eins og sakir standa. En tafl­­staðan gagn­vart sam­starfs­flokkunum er sterkari í fram­haldinu.

Á skömmum tíma hefur for­sætis­ráð­herra kastað bjarg­hring til beggja leið­toga sam­starfs­flokkanna í tveimur að­skildum málum. Til­vera þeirra í ríkis­stjórn byggist því um sinn á náð hennar.

Enginn veit í hversu ríkum mæli for­maður VG mun nýta sér þessi undir­tök. En mögu­leikinn liggur á borðinu. Að sama skapi hafa mál­efna­leg tök sam­starfs­flokkanna veikst.

Stærsta málið út af borðinu

Sala á eignar­hlutum ríkisins í Ís­lands­banka og Lands­banka var lang­sam­lega stærsta málið á verk­efna­skrá ríkis­stjórnarinnar. Að auki var það eina kerfis­breytingin, sem stjórnar­flokkarnir gátu sam­mælst um.

Banka­salan var svo eina sér­mál Sjálf­stæðis­flokksins. Pólitískt mikil­vægi hennar var því mest fyrir hann.

Nú hefur VG ýtt þessu eina stóra máli stærsta flokksins út af borðinu. Það er gert með móður­legum orðum um að það verði ekki tekið aftur upp á borðið fyrr en búið er að endur­vinna glatað traust.

Þetta þýðir að það á­kvæði í stjórnar­sátt­málanum sem tryggði að fjár­mála­ráð­herra gæti lokið banka­sölunni í á­föngum, er ó­virkt. Fram­haldið er al­farið komið undir mati formanns VG.

Þetta er fyrsta dæmið um það hvernig VG hefur styrkt mál­efna­stöðu sína með björguninni. Og sam­starfs­flokkurinn sættir sig við undan­haldið.

Beðið eftir vinnu­markaðnum

Ríkis­fjár­málin eru veiga­mesta í­myndar­mál Sjálf­stæðis­flokksins. Ríkis­stjórnin var komin í vörn á þessu sviði fyrir banka­sölu­stríðið.

Í vetur sem leið sagði Við­skipta­ráð að ríkis­fjár­mála­stefnan kynti undir verð­bólgu og Sam­tök at­vinnu­lífsins sögðu að ríkis­stjórnin væri að flytja skulda­vandann yfir á næstu ríkis­stjórn.

Þyngst er ný­leg gagn­rýni fjár­mála­ráðs, sem telur að fjár­mála­á­ætlunin feli á­fram í sér kerfis­lægan stöðugt vaxandi halla um­fram skulda­vandann, sem far­aldurinn leiddi til.

Þessir dómar varpa ljósi á þann pólitíska veru­leika að ríkis­stjórnin hefur enga efna­hags­pólitík. Hún bíður nú eftir því að aðilar vinnu­markaðarins komi fram með til­lögur. (Bara að það endi ekki eins og biðin eftir Godot.)

Efna­hags­pólitíkin til vinstri

Vandinn er að kjara­samningar geta dregist fram á næsta ár vegna inn­byrðis á­taka í verka­lýðs­hreyfingunni. Það seinkar kaup­hækkunum og væntan­lega líka stefnu­mótun vinnu­markaðarins í efna­hags­málum.

Vilji for­sætis­ráð­herra nýta sér það að hafa bjargað leið­togum beggja sam­starfs­flokkanna á hún þann leik á borði að taka stöðu með væntan­legum út­gjalda­kröfum ASÍ og sveigja efna­hags­stefnuna lengra til vinstri í við­ræðum við aðila vinnu­markaðarins.

Að réttu lagi ætti hins vegar ekki að bíða heldur taka tafar­laust mark á á­bendingum fjár­mála­ráðs til þess að styrkja sam­keppnis­hæfni Ís­lands og stefna að stöðug­leika fyrir fólk og fyrir­tæki. Tal í þá veru verður ekki trú­verðugt rétt fyrir kosningar eftir þrjú ár.

Peð fyrir hrók

Þessi dæmi sýna að tvö helstu í­myndar­mál Sjálf­stæðis­flokksins verða í upp­námi út kjör­tíma­bilið. Menn losa ekki þann gaffal með því að leggja niður Banka­sýsluna.

Stærsti flokkurinn í stjórnar­sam­starfinu er þannig kominn í mál­efna­lega bónda­beygju minnsta flokksins. Það er öfug­snúið, en er ein­fald­lega fórnar­kostnaður fyrir björgunina.

Fram­sókn er í opnari stöðu. Hún hefur enga sjálf­stæða skoðun á því hvort efna­hags­stefnan sveigist til hægri eða vinstri. Björgunin hefur því mál­efna­lega minni á­hrif á hana.

Í taflinu um völd og mál­efni fórnaði VG peði fyrir hrók. Það þyngir enda­tafl kjör­tíma­bilsins fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. maí 2022