12 maí Í átt að sjálfbærri borg
Orðið sjálfbærni er ungt að árum í íslenskri tungu og var fyrst notað í kringum 1965 (1). Hugtakið sjálfbær þróun er enn yngra og var ekki formlega skilgreint fyrr en undir lok síðustu aldar. Síðan þá hefur það fengið verðskuldað brautargengi í því hvernig við leysum verkefni sem snúa að umhverfinu og jörðinni allri á bæði stórum og smáum skala. Efasemdaraddirnar hafa smám saman dofnað, því ef hlutirnir eru rétt gerðir hagnast allir á sjálfbærri þróun.
Borgir eru eitt stærsta mannanna verk, og því kemur ekki á óvart að rekstur þeirra og skipulag hafi í síauknum mæli verið skoðað með hliðsjón af sjálfbærri þróun. Þessi hugsun hefur því ratað inn í flest það sem viðkemur borgarmálum og Reykjavík er engin undantekning. Og ekki seinna að vænna því áskoranir okkar eru stórar og má þar nefna loftslagsmál.
Náum markmiðum okkar
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er áætlun til ársins 2030 um að auka sjálfbæra þróun á heimsvísu. Þau eru sautján talsins og mörg þeirra eiga vel við þegar kemur að höfuðborginni okkar. Og við erum að standa okkur vel. Sem bæði borg og reyndar þjóð erum við standa okkur mjög vel þegar kemur að jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla, heilsu og vellíðan, atvinnu- og nýsköpun, og svo má áfram telja. Sjálfbærar borgir eru svo eitt sjálfstætt markmið í Heimsmarkmiðunum og það er þar sem Reykjavík fer með veigamikið hlutverk á Íslandi.
Verðum sjálfbær borg
Reykjavík er mjög góð borg á flesta mælikvarða. Áskoranirnar í átt að sjálfbærri borg eru þess eðlis að það er vel raunsætt að stefna á að vera best í heimi. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert, eða hvað? En til að svo megi verða eru nokkur atriði sem þarf að setja í forgang. Það þarf að halda áfram að auka framboð húsnæðis, ekki síst fyrir tekju- og eignalága. Það gekk vel á síðasta kjörtímabili, eftir mörg mögur ár þar á undan. Met voru slegin í íbúðauppbyggingu og óhagnaðardrifin húsnæðisfélög hafa átt ríkan þátt í því, en halda þarf dampi. Við verðum að bæta loftgæði, en þar á svifryk einna stærstan þátt. Í Reykjavík er orsökin helst sú hve við keyrum bíla mikið, en slit á malbiki og bremsuborðum auk útblásturs frá bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eru stærstu uppsprettur svifryksins. Stærstur hluti af örplastmengun í hafinu við landið kemur frá sliti bíldekkja og vegmerkinga (2). Þá eru ótalin atriði eins og umferðarhávaði og umferðarslys, en þau draga úr lífsgæðum okkar.
Jákvæðar breytingar áfram
Það þarf að halda áfram á þeirri braut að stórbæta aðstæður fyrir gangandi, hjólandi og notendur almenningssamgangna, en í dag er meira en fjórðungur þeirra sem keyra bíl tilbúinn til að ferðast með öðrum fararmátum ef aðstæður batna nógu mikið frá því sem nú er (3). Þá þarf að draga hlutfallslega úr akstri til að borgin nái kolefnishlutleysi (4). Það er ekki nóg að rafvæða bílaflotann. Þess vegna er Borgarlínan mikilvæg og ekki má gefa afslátt af henni. Hún er nauðsynleg forsenda þess að jákvæðar breytingar geti orðið. Hugmyndir sumra um svokallaða léttlínu ganga ekki upp, því að baki þeirri hugmynd á að ráðast í stórfellda, kostnaðarsama og sársaukafulla uppbyggingu á hraðbrautum og mörgum mislægum gatnamótum. Það hampar einkabílnum á kostnað annarra samgöngumáta, einkum gangandi og hjólandi, og hentar síður vel inni í borgum m.a. út af plássi, mengun og hávaða. Það mun gera illt verra og vinnur gegn öðrum markmiðum. Ekki er síður áríðandi að stækka gjaldsvæði bílastæða, en það er mjög í anda sjálfbærni að notendur greiði fyrir afnot af borgarlandi okkar allra í takt við notkun. Það er réttlæti gagnvart hinum sem ekki nota það eins mikið. Þá þarf að vernda, stækka og efla græn svæði sem hafa mikla þýðingu fyrir útivist og aðgengi okkar að gróðri og náttúru.
Viðreisn til verksins
Hér hefur einungis verið tæpt á því helsta. Þetta er það sem Viðreisn í Reykjavík vill halda á lofti á næsta kjörtímabili. Viðreisn vill að Reykjavík verði í fremstu röð meðal sjálfbærra borga, en sjálfbærar borgir eru líka einfaldlega skemmtilegustu borgirnar. Ef þú ert sammála því er atkvæði greitt Viðreisn vel varið.