Mosfellsbær er staðurinn …

… sem fokking ól mig upp!
Svo sagði í laginu hans Dóra DNA, Mosó, sem kom út árið 2004.

Það eru án efa fleiri en ég sem tengja við þennan texta, enda þarf samfélag til að ala upp börn. Ég fluttist í Mosfellsbæ eins árs og hef búið hér að stærstum hluta síðan en eins og er með flesta Mosfellinga þá byrjaði ég að búa í öðru sveitarfélagi.

Ég sagði oft að það væri eitthvað sem togaði mig til baka í Mosfellsbæ og þegar ég fór að velta fyrir mér hvað þetta ,,eitthvað” væri komst ég að því að það var samfélagið og fólkið sem skapaði umhverfið sem ég ólst upp í. Við eigum það til að taka samfélaginu sem sjálfsögðum hlut en þegar betur er að gáð þá blómstrar samfélagið ekki nema það sé fólk sem hlúir að því.

Skólarnir

Mikilvægur hlut samfélagsins eru skólarnir okkar. Fyrstu minningar marga eru úr skólakerfinu, bæði leikskóla og grunnskóla og að ógleymdri frístundinni.
Í þessum stofnunum starfar fólk sem er stór hlut af lífi barna og það er ekki sjálfgefið fá gott fólk til starfa í skólakerfinu. Ég var heppin og á góðar minningar frá þessum tíma hvort sem það er Gulla að hamra inn íslenskuna, Halldór í samfélagsfræði, Þyri með stærðfræðina, Árni Jón, Guðmundur, Hanna, Stefán, Malla, Úrsúla, Steinunn, Siggi Palli, Linda, Erna, Sesselja, Björg eða einhverjir af þeim sem ég er að gleyma að skrifa niður núna.

Til þess að öll börn njóti öryggis og eignist góðar minningar þá þarf starfsfólk skólanna vinnuumhverfi og stuðning til þess að geta veitt börnum tækifæri til þess að dafna og blómstra.

Við í Viðreisn viljum að áhersla verði lögð á að bæta stoðþjónustu í skólunum. Ég vil að við styðjum við starfsfólk skólanna til þess að tileinka sér nýja færni og þróast í starfi.

Ég vil að skólasamfélagið verði framúrskarandi og að starfsmönnum líði vel. Það skiptir framtíðina máli hvernig er staðið að þessum málaflokki.

Þú hefur áhrif

Ég vildi að allir sæju kosningar eins og þær raunverulega eru. Tækifæri til þess að hafa áhrif á umhverfið sitt, vegferðina sem sveitarfélagið er á og framtíð þess.
Því miður þá eru bara alltof margir sem virðast ekki trúa því að þeir raunverulega hafi áhrif. Ég held þó að nýliðnar Alþingiskosningar hafi sýnt það og sannað að einungis örfá atkvæði geta breytt öllu!

Á laugardaginn er þitt tækifæri til þess að ákveða hvert Mosfellsbær á að stefna næstu 4 árin. Þú ákveður hvaða fólk, hvaða hugsjón og hvaða flokkur fær þitt atkvæði og með því ert þú að móta hver framtíð bæjarins verður.

Með því að veita mér þitt atkvæði mun ég lofa því að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að halda í Mosfellsbæjarandann, að hér verði fyrirmyndar samfélag sem hlúir saman að öllum sínum íbúum og tengist þessum sterku böndum að vera Mosfellingar.

C-ykkur á kjörstað.
Veldu Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Mosfelling 12. maí 2022