05 maí Sundabraut, alla leið
Sundabraut, alla leið upp á Kjalarnes, er verkefni sem við í Viðreisn, þvert á sveitarfélög, klárlega styðjum. Um mikilvægi Sundabrautar hef ég skrifað nokkrar greinar, hér í Morgunblaðið og í hverfablöðin, þetta kjörtímabil. Þetta er því ekki kosningaloforð sem flaggað er rétt fyrir kosningar í von um að slá ryki í augu einhverra kjósenda.
Kennileiti til framtíðar
Við höfum greiningu sem segir okkur hversu hagkvæmt það er að leggja Sundabraut. Enn á ríkið eftir að taka ákvörðun um hvort þetta verði brú eða göng. Við myndum kjósa Sundabraut sem styður alla samgöngumáta, og sjáum fyrir okkur veglega brú sem gæti orðið eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur til framtíðar. Til að svo verði þarf að fara í hönnunarsamkeppni og velja brú sem virkilega segir okkur hvað slík mannvirki geta verið falleg.
Það er ríkið sem mun kosta og leggja Sundabraut. En Reykjavíkurborg þarf að koma að skipulagningu og koma málum þannig að Sundabraut trufli ekki óhóflega umhverfi þeirra sem þegar búa við Sundabraut. Þar þarf að huga að Vogunum, Grafarvogi og ekki síst Kjalarnesi, svo að brú hafi ekki neikvæð áhrif á uppbyggingarmöguleika þar.
Sundabraut vinnur með borgarlínu
Sundabraut vinnur vel með borgarlínu. Þetta eru ekki andstæður í samgöngubótum, þar sem við þurfum að velja annaðhvort eða. Hér getum við sagt: Við viljum bæði. Við viljum hágæða almenningssamgöngur með borgarlínu. Og við viljum Sundabraut sem, líkt og borgarlína, vinnur vel með áformum um þéttingu byggðar til að tryggja lifandi og mannvænleg hverfi í öllum borgarhlutum. Bæði Sundabraut og borgarlína tengja hverfi borgarinnar betur saman, hvor á sinn hátt, þannig að það verði auðveldara að ferðast á milli borgarhverfanna.
Með Sundabraut tengjast Grafarvogur og Kjalarnesið betur við miðborgina. Líkt og ég hef áður nefnt, þá styður Sundabraut vel við þær breytingar sem eru að verða á Ártúnshöfðanum og nágrenni, þar sem allt að 8.000 íbúðir munu rísa. Það hverfi verður því nokkuð fjölmennara en t.d. Grafarvogur er í dag.
Færum Esjumela nær
En á Ártúnshöfðanum eru fyrir fyrirtæki sem við viljum halda í Reykjavík. Þar erum við að reisa ný atvinnuhverfi á Esjumelum og uppi á Hólmsheiði. Líkt og er í anda allra borga, þá færast atvinnu- og iðnaðarhverfi út í jaðra borga þegar landsvæði hverfanna verður verðmætara og ódýrara er að vera með plássfreka atvinnu á ódýrari landsvæðum. Með Sundabraut myndum við færa, ekki bara Kjalarnesið, heldur líka Esjumelana nær borginni og gera það svæði mun meira aðlaðandi í samkeppni við önnur sveitarfélög.
Og höldum áfram að lækka fasteignaskatta
Við munum svo enn frekar styðja við Reykjavík sem atvinnuborg á komandi kjörtímabili með því að halda áfram að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði niður í 1,55%.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. maí 2022