21 jún Atvinnumál í öndvegi
Fyrir borgarstjórn í dag liggur tillaga meirihlutans um að málaflokkur atvinnumála, nýsköpunar og ferðaþjónustu muni tilheyra forsætisnefnd borgarinnar. Forsætisnefnd hefur nú þegar með höndum nokkur aðskilin verkefni og hefur áður verið falið að annast aðra málaflokka. Það eru því ekki nýmæli að forsætisnefnd fjalli um meira og annað en næsta fund borgarstjórnar.
Síðustu ár hafa þessir málaflokkar ekki átt fastan stað í borgarskipulaginu. Með því að vista þá í forsætisnefnd er því verið að lyfta þeim hærra en áður og viðurkenna mikilvægi þeirra fyrir Reykjavíkurborg. Við fundum fyrir miklum áhuga og þörf fyrir þessu við undirbúning atvinnu- og nýsköpunarstefnu sem við samþykktum í vor. Ekki síst þar sem stefnunni fylgdu tillögur að aðgerðaáætlun, sem fylgja þarf fast eftir. Undir forsætisnefnd er málaflokkunum sýnd virðing auk þess sem við gætum ráðdeildar með því að nýta innviði og kerfi í stað þess að stofna nýtt ráð.
Reykjavík hefur alla burði til að bjóða upp á alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi fyrir skapandi atvinnulíf, menningu og nýsköpun. En við þurfum að draga fram kostina og verða enn sveigjanlegri. Í aðgerðaáætlun atvinnu- og nýsköpunarstefnu er lagt til að útbúa rafrænan samskiptavettvang fyrir fyrirtæki, til að einfalda stjórnsýsluna og fækka flækjustigum. Þar lögðum við líka til að efla atvinnulíf í hverfum og endurskoða innkaup borginnar til að efla samkeppni og auka fjölbreytni. Ekki síst er mikilvægt að bæta samtalið við atvinnulífið til að byggja saman upp enn blómlegra atvinnulíf.
Þá er ferðaþjónustan að koma aftur af fullum krafti. Á síðasta kjörtímabili samþykktum við ferðamálastefnu sem stefnir að Reykjavík sem vinsælum áfangastað, í góðri sátt við borgarbúa. Eitt mikilvægt skref til að svo verði er að á höfuðborgarsvæðinu verði til áfangastaðastofa sem sinni því hlutverki að markaðssetja höfuðborgarsvæðið í góðu samstarfi sveitarfélaga og ferðaþjónustunnar sjálfrar. Tækifærin hér eru óteljandi.