Pólitískur ómöguleiki stjórnvalda

Stjórn­málin eru ger­breytt eftir inn­rásina í Úkraínu. Í Noregi hefur um­ræðan um aðild landsins að ESB orðið há­værari, Sví­þjóð og Finn­land hafa sótt um aðild að NATO og Danir hafa kosið að hefja þátt­töku í varnar­sam­starfi ESB. Í ná­granna­ríkjunum er sam­staða um þörfina fyrir endur­mat og um­ræðu.

Öðru máli gegnir um við­brögð stjórn­valda hér heima. Enginn á­hugi á að endur­meta stöðu okkar. Allir val­kostir slegnir af borðinu og engar til­lögur settar fram. Og auð­vitað má alls ekki spyrja þjóðina.

Um­ræðan um varnar­mál eykur van­líðan VG við ríkis­stjórnar­borðið og hinir stjórnar­flokkarnir eru með­virkir. Þess vegna verður ekkert gert. Senni­lega er stefnu­leysi við stýri þjóðar­skútunnar hinn sanni pólitíski ó­mögu­leiki í ís­lenskum stjórn­málum.

Nú eru breyttir tímar og kostir ESB-aðildar blasa skýrt við. Ekki síst hvað öryggis­hags­muni varðar. Rifjum upp þver­fag­legu á­hættu­mats­skýrsluna sem stjórn­völd létu gera eftir brott­hvarf varnar­liðsins. Mælt var með sterkara sam­starfi Ís­lands við ESB þar sem landið stæði frammi fyrir á­hættu­þáttum ekki ó­svipuðum þeim í öryggis­stefnu ESB.

Með­mælin eiga líka við í dag. Eins og hin Norður­löndin og evrópsk ná­granna­ríki Rúss­lands gera sér grein fyrir. Þau eru í engum vafa um mikil­vægi sam­bandsins fyrir lýð­ræði og mann­réttindi, enda stofnað til að við­halda friði. Það hefur mikla þýðingu í heims­álfu sem þekkir hörmu­legar af­leiðingar stríðs.

Öryggi okkar nyti góðs af virkari þátt­töku innan ESB og varnar­sam­starfsins. Mikil­væg við­bót við aðildina að NATO sem ein og sér dugar ekki her­lausri smá­þjóð. Því í dag snýst öryggið ekki bara um inn­rásir og hefð­bundinn hernað. Einnig um sam­fé­lags­öryggi og inn­viði þjóða, efna­hag og al­manna­varnir, um­hverfi og auð­lindir, og svo margt fleira. Svo frelsi og lýð­ræði verði tryggt.

Við þurfum að styrkja varnir okkar á öllum sviðum og tryggja hags­muni okkar í víðum skilningi. Þar er aðild að Evrópu­sam­bandinu aug­ljós kostur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. júní 2022