16 jún Stór kaflaskil eða smá?
Með myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hefur Framsókn í fyrsta skipti í sögunni tryggt sér stól borgarstjóra.
Ólafur Harðarson, fyrrum prófessor í stjórnmálafræði, hefur réttilega dregið fram að þetta er viðburður, sem markar pólitísk kaflaskil.
Breytingin í Reykjavík hefur þó tæplega afgerandi áhrif á borgarsamfélagið. Hitt er stærri spurning: Munu kaflaskilin hafa áhrif á landsmálapólitíkina?
Ný ásjóna
Umræða um nýjan borgarstjórnarmeirihluta hefur mestmegnis endurspeglað mismunandi mat á því hvort eða hversu miklar breytingar megi finna í málefnasamningi hans.
Í kosningunum var orðið breytingar notað meir en önnur. Í því ljósi er ekki óeðlilegt að menn leiti þeirra í nýjum meirihlutasáttmála.
Veruleikinn er hins vegar sá að enginn flokkur boðaði grundvallarstefnubreytingar í málefnum borgarinnar.
Kosningarnar snerust því í raun og veru meir um ný andlit en nýja stefnu. Í þessu sambandi mega menn ekki gleyma að verkefni sveitarfélaga eru að mestu lögbundin.
Miðjubandalag
Hóflegar málefnalegar breytingar eru þannig í fullu samræmi við stefnuskrár flokkanna. Pólitísk samsetning nýja meirihlutans vitnar aftur á móti um miklar breytingar.
Nú eru það flokkarnir næst miðjunni, sem mynda meirihluta. Flokkarnir á jöðrunum til hægri og vinstri sitja eftir í minnihluta. Þetta hefur ekki gerst áður í Reykjavík og aldrei á Alþingi.
Ríkisstjórnin er andstæðan við þetta mynstur. Þar eru það flokkarnir á jöðrunum, sem raunverulega ráða för. Framsókn hefur tiltölulega lítil málefnaleg áhrif við ríkisstjórnarborðið.
Hér er því komið nýtt tækifæri fyrir flokkana næst miðjunni. Reynslan ein mun svara því hvernig það tækifæri verður nýtt.
Helsti óvissuþátturinn lýtur að því hvort stóraukið fylgi Framsóknar á höfuðborgarsvæðinu öllu og væntanleg forysta fyrir meirihluta í Reykjavík muni einnig leiða til frjálslyndari viðhorfa í landsmálum.
Íhaldselementin
Reynslan frá Alþingi sýnir að samstarf jaðranna í hartnær fimm ár hefur leitt til þess að mikilvægustu ákvarðanir eru settar í biðflokk af því að samstarf þeirra byggist á gagnkvæmu neitunarvaldi.
Samstarfið hefur leitt í ljós að íhaldselementin í Sjálfstæðisflokknum eru orðin sterkari en þau frjálslyndu. Eins er þetta í VG. Þar eru íhaldselementin orðin sterkari en þau róttæku.
Þetta merkir að Sjálfstæðisflokkurinn telur sig eiga ríkari málefnalega samleið með VG en frjálslyndum flokki eins og Viðreisn. Að sama skapi telur VG sig eiga meira sameiginlegt með Sjálfstæðisflokknum en sósíaldemókrötum í Samfylkingu.
Margt bendir því til að í fyrirsjáanlegri framtíð muni þessir tveir flokkar ýmist vera saman í meirihluta eða minnihluta eins og nú er á Alþingi og í borgarstjórn.
Jaðarflokkarnir taka skellinn
Þetta veltur þó talsvert á Framsókn. Þar eru líka sterk íhaldselement. Áhrifavald þeirra getur ráðið miklu um það hvort kaflaskilin takmarkast við þetta kjörtímabil í Reykjavík eða hvort þau leiða til breytinga á Alþingi eftir næstu þingkosningar.
Í þessu ljósi er ástæða til að skoða tvö atriði:
Annars vegar bendir margt til að jaðarflokkarnir í stjórnarsamstarfinu hafi tekið skellinn vegna óánægju með biðflokkspólitíkina. Framsókn hefur notið þess að vera ekki gerandi við ríkisstjórnarborðið. Hugsanlega er unnt að teygja þá stöðu fram yfir næstu þingkosningar.
Hins vegar er athyglisvert að Framsókn nýtur þessarar sérstöðu í stjórnarsamstarfinu á sama tíma og skoðanakannanir sýna vaxandi stuðning við fulla aðild að Evrópusambandinu og þótt nýja fylgið komi að hluta frá þeim flokkum, sem hafa stutt þá stefnu. Þrettán ár eru síðan Framsókn gekk til kosninga með fulla aðild á stefnuskrá.
Líkurnar á kaflaskilum á Alþingi
Vitaskuld er ekki unnt að lesa neitt út úr kosningunum um afstöðu fólks til fullrar Evrópusambandsaðildar, enda var hún ekki á dagskrá þeirra.
Hitt er ljóst að fátt bendir til þess að íhaldselementin í Framsókn hafi skapað þennan mikla kosningasigur.
Spurningin um kaflaskil í víðara samhengi en því sem nær til borgarstjórastólsins ræðst þar af leiðandi mest af því hvort frjálslynda miðjuelementið í Framsókn lætur meira að sér kveða á næstunni. Án þess er erfitt að sjá samsvarandi kaflaskil í landsmálunum.