Bókhald og pólitík

Þorsteinn Pálsson

Ásíðum Fréttablaðsins síðustu vikur hefur staðið snörp ritþræta milli prófessors í hagfræði og endurskoðanda um lagatúlkun varðandi bókhald sjávarútvegsfyrirtækja.

Þrætan snýst um það hvort aflahlutdeild telst til óefnislegra eigna, sem ekki þarf að sýna hvers virði eru í bókhaldinu, nema að hluta.

Lagaþrætur geta verið áhugaverðar. Hér er pólitíska spurningin þó meira brennandi: Hvernig telur pólitíkin að tvímælalaus lagaákvæði um þetta efni eigi að vera?

Frá almenningi til einkaréttar

Áður fyrr voru fiskimiðin almenningur. Allir sem vettlingi gátu valdið höfðu rétt til að róa til fiskjar. Þau réttindi voru verðlaus.

Þegar þessi verðlausu réttindi voru skert fengu þeir, sem veitt höfðu þrjú ár á undan, einkarétt til að halda áfram að nýta Íslandsmið. Sá einkaréttur kallast aflahlutdeild og varð smám saman mjög verðmætur eftir því sem hann var nýttur til hagræðingar.

Verðmæti einkaréttarins er forsenda fyrir sjálfbærum rekstri sjávarútvegs, aflahæfi og lánshæfi. En hver á þennan verðmæta rétt?

Hugmyndafræðin

Sumir halda því fram að um sé að ræða ótakmarkaða einkaeign útgerðanna. Almenni skilningurinn, sem festur er í lög, segir að miðin séu sameign þjóðarinnar.

Auðlindanefnd Jóhannesar Nordal, sem skilaði áliti árið 2000, byggði á sameignarkenningunni. Um leið færði hún skýr rök fyrir því að einkaréttur til afnota ætti að vera tímabundinn og fela í sér takmörkuð stjórnarskrárvarin eignarréttindi, sem greiða ætti hóflegt gjald fyrir.

Um þennan hugmyndafræðilega grundvöll varð í orði almenn sátt. Á borði hefur hún hins vegar ekki verið framkvæmd.

Óviss réttarstaða

Fyrir vikið er réttarstaðan afar ruglingsleg og óviss.

Í framkvæmd er einkarétturinn að mestu óendanlegur. Það byggist hins vegar á pólitískum áhrifum en ekki lögbundnum rétti, því samkvæmt fiskveiðistjórnarlögum er hann afturkallanlegur hvenær sem er.

Aftur á móti er einkarétturinn eilífur í skilningi skattalaga, sem heimila ekki að verðmæti hans sé afskrifað.

Samt lætur nærri að árlega hafi að meðaltali hálft prósent aflahlutdeildar í þorski verið flutt af stórum skipum á smábáta; mest fyrstu árin.

Hugmyndafræði ýtt til hliðar

Núverandi ríkisstjórn víkur frá hugmyndafræði auðlindanefndarinnar í þremur veigamiklum atriðum. Hún neitar að tímabinda einkaréttinn. Hún vill ekki lögfesta hann sem takmörkuð eignarréttindi. Og hún skirrist við að taka auðlindagjald fyrir verðmæti einkaréttarins, en lögbindur þess í stað ógegnsæjan sérstakan meðaltalstekjuskatt, sem deilist á aflahlutdeildina.

Hugmyndafræði auðlindanefndarinnar var sú að skattleggja ætti sjávarútveg eins og aðrar atvinnugreinar. Hann ætti hins vegar eins og aðrir, sem nýta sameiginlegar auðlindir, að greiða hóflegt gjald fyrir verðmæti þess einkaréttar.

Skilja má að flokkurinn lengst til vinstri geri ekki mun á skatti og auðlindagjaldi. Hitt er óskiljanlegt að flokkurinn lengst til hægri skuli ekki lengur gera það.

Takmörkuð eignarréttindi

Þá komum við aftur að bókhaldinu. Hér er um að ræða takmörkuð eignarréttindi, hvort sem þau gilda í ákveðinn eða óákveðinn tíma. Verðmæti þeirra er augljóslega eðlilegasta viðmið auðlindagjalds.

Hvernig á svo að finna verðið? Ein leið er að ríkið sem handhafi þjóðareignarinnar ákveði það með lögum. Á endanum yrði það pólitískt mat.

Önnur leið er að nota það verð, sem frjálsi markaðurinn sýnir. Hlutfallslega eru þau viðskipti lítil og verðleiðsögnin því ekki fullkomin.

Hitt er betri leið að stækka markaðinn. Á hverju ári gæti ríkið selt 5 prósent aflahlutdeildarinnar til 20 ára í senn. Þá er komið marktækt markaðsverð á tímabundin takmörkuð eignaréttindi, sem ræðst af aðstæðum.

Þannig má eyða ríkjandi réttar­óvissu, tryggja varanleika og réttlæti.

Pólitíski vandinn

Þræta sérfræðinganna snýst ekki bara um bókhaldstækni. Hún endurspeglar eitt stærsta pólitíska viðfangsefni samtímans.

Miklu skiptir að leikreglur um svo snaran þátt í þjóðarbúskapnum séu byggðar á vel ígrunduðum hugmyndafræðilegum grundvelli.

Vandinn er að meirihlutinn á Alþingi gerir ekki mun á sköttum og gjöldum og lætur lögmál markaðarins víkja fyrir skammtíma gæslu sérhagsmuna. Hvort tveggja stríðir gegn lengri tíma heildarhagsmunum sjávarútvegsins og réttlætiskennd þjóðarinnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. ágúst 2022