Verkk­víði ríkis­stjórnar í lofts­lags­málum

Það blasir alltaf skýrar við að aðgerðir í loftslagsmálum eru stærsta hagsmunamál komandi kynslóða. Í allt sumar hefur Evrópa glímt við mikla þurrka sem nú stefna í að verða þeir mestu í 500 ár. Þeir hafa valdið uppskerubresti, fiskidauða og truflunum á vöruflutningum. Vatnskortur sem einu sinn þótti óhugsandi er nú yfirvofandi og afleiðingarnar leyna sér ekki.

Forysturíki í orði en ekki á borði

Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér metnaðarfull markmið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ísland á að verða fyrsta ríkið sem er óháð jarðefnaeldsneyti og á að ná kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum ekki seinna en árið 2040. Það er stefnt að því að fyrir árið 2030 dragist losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda saman um 55% frá því sem var árið 2005.

Í heil fimm ár hefur forsætisráðherra talað um Ísland sem forysturíki á sviði loftslagsmála. Fréttir af ræðum hennar á erlendri grundu vekja athygli. Engu að síður hefur vantað allar aðgerðir til að ná fram þeim markmiðum sem eiga að gera Ísland að þessu forysturíki. Nýr umhverfisráðherra hefur sjálfur sagt að til þess að þessi markmið náist þurfi að herða róðurinn verulega. Enn sem komið er liggja fyrir orð en ekki efndir.

Loftslagsráð hefur bent á að mark­mið um sam­drátt í losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir 2030 séu ó­ljós og ó­full­nægjandi. Ráðið telur nauðsynlegt að stjórn­völd skýri og út­færi mark­miðin nánar. Í grænni skýrslu umhverfisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi ekki fylgt eftir markmiðum sínum um orkuskipti með skýrum ákvörðunum um orkuöflun. Ungir umhverfissinnar hafa gefið ríkisstjórninni falleinkunn í loftslagsmálum. Ekkert af þessu rímar við orð Katrínar Jakobsdóttur um Ísland sem forysturíki á sviði loftslagsmála. Og raddirnar heyrast víðar.

Háleit markmið en svo ekkert

Ríkisstjórnin hefur hvatt aðra til dáða og biðlað til almennings sem og atvinnulífsins um að gera sitt. Auðvitað þarf allt samfélagið að leggja sitt af mörkum en stjórnvöld verða að taka að sér stærra hlutverk til að ná eigin markmiðum. Ríkisstjórnin hefur öll tækifæri til að hafa jákvæð áhrif og ætti að vera meira en álitsgjafi í fjölmiðlum eða málstofa vel meinandi fólks. Það skiptir ekki bara máli hver stjórnar, heldur hvernig er stjórnað.

Á síðasta þingi lagði ég fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um hversu hátt hlutfall fjárfestinga ríkisins styður við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Nánar tiltekið um þær fjárfestingar ríkisins sem snúa að verndun vistkerfa, markmiðum um losun mengandi gróðurhúsalofttegunda eða stuðla að því að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar á sviði loftslagsmála. Grænar fjárfestingar í stuttu máli. Auðvitað er ekki alveg einfalt erfitt að leggja mat á þetta en samkvæmt svari ráðherra námu þær fjárfestingar sem beinlínis styðja við loftslagsmarkmiðin – og geta kallað grænar – 2,9 milljörðum. Svarið verður skýrara þegar sú tala er sett í samhengi við heildartölu fjárfestinga. Þá sést að þessar grænu fjárfestingar voru 2% af heildarfjárfestingum á síðasta ári. Ríkisstjórnin fegrar svo bókhaldið með því að telja til fjárfestingar sem styðja „með óbeinum hætti“ við loftslagsmarkmiðin. Það bókhald virðist í anda skapandi skrifa enda útgjöld til nýs landspítala þá talin til grænna fjárfestinga.

Tímasett plan og skýr verkstjórn takk

Það er sjálfstætt áhyggjuefni að ríkisstjórnin getur illa skilgreint hvað raunverulega telst til grænna fjárfestinga, þrátt fyrir sín háleitu markmið.Loftslagsráð hefur einmitt bent á að í fjár­mála­á­ætlun sé erfitt að átta sig á því hvaða for­sendur, gögn og greiningar liggja að baki for­gangs­röðun fjár­muna og hvaða á­vinnings er að vænta af fram­lögum til ein­stakra aðgerða. Það dregur úr líkum þess að ríkisstjórnin nái fram markmiðum sínum þegar yfirsýnin er lítil og fólk vinnur í blindflugi.

Eftir stendur þó að það jákvæða í stöðunni er að það er algjörlega raunhæft að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér. Allt sem þarf er að vinna eftir skýrri hugmyndafræði og verkstjórn og fylgja markvissum og tímasettum aðgerðum eftir. Fyrst þarf ríkisstjórnin bara að losa sig við verkkvíðann sem hindrar árangur í þeim málaflokki sem er nú og mun lengi verða sá allra mikilvægasti.

Greinin birtist fyrst á Vísi 19. ágúst 2022