Graðhvannarnjóli

Þorsteinn Pálsson

Eg ætla að eg hafi þá nógar, að þessi er uppi er eg held um,“ segir í Gerplu að Þorgeir Hávarsson hafi mælt til fóstbróður síns eftir að hann missti táfestuna í bjarginu og hafði ekki annað hald en graðhvannarnjóla, sem hann hékk í. Sjávarútvegspóli­tíkin er svolítið á þessum stað núna.

Frjálst framsal

Frjálst framsal aflahlutdeildar er forsenda þjóðhagslegrar hagkvæmni sjávarútvegs. Fyrir vikið eigum við færri en öflugri fyrirtæki en áður og færri en sterkari útgerðarbæi.

Þessu lögmáli fylgja óhjákvæmilega breytingar. Einhver fyrirtæki láta undan en önnur eflast eins og í öðrum atvinnugreinum, jafnvel í landbúnaði.

Í öndverðu var frjálst framsal umdeilt. Nú er lítill ágreiningur um það.

Rök fyrir lágu gjaldi

Deilan stendur fyrst og fremst um hitt: Hvað telst vera eðlilegt gjald fyrir einkaréttinn og hvernig á að finna grundvöll þess?

Enginn hefur haldið því fram að þau fyrirtæki, sem veiða stærsta hluta heildaraflans, geti ekki greitt hærra gjald og komist vel af þrátt fyrir það. Sú staðreynd er of augljós til að unnt sé að afneita henni.

Rökin eru þau að örfáar smáar útgerðir með lökustu afkomuna geti ekki haldið áfram sjálfstæðum rekstri hækki gjaldið.

Rökin fara í kross

Samrunaþróunin hefur verið á fullri ferð í þrjá áratugi. Ef menn vilja nú að markmiðið um þjóðhagslega hagkvæmni nái ekki til þessara fáu litlu fyrirtækja er réttast að taka þau út fyrir sviga í markaðskerfinu og banna framsal á aflahlutdeild þeirra.

Þessi fyrirtæki yrðu þá rekin á grundvelli byggðasjónarmiða eins og landbúnaðurinn. Flestir tala eðlilega gegn því. En þá er röksemdafærslan líka komin í kross.

Á undanförnum þingum hafa verið fluttar tillögur um að þrengja talsvert möguleika stærstu fyrirtækjanna til frekari samruna. Það gefur aftur meðalstórum og minni útgerðum meira svigrúm til hagræðingar.

Fram til þessa hafa núverandi stjórnarflokkar lagst þverir gegn slíkum breytingum. Þá gleymist alveg umhyggjan fyrir veikari byggðum. Rökin eru aftur komin í kross.

Þingmenn eða markaðurinn

Menn deila svo um hvort þingmenn eigi að ákveða endurgjald fyrir einkarétt til að veiða úr sameiginlegri auðlind eða útgerðarmennirnir sjálfir á uppboðsmarkaði.

Rökin gegn því að útgerðarfyrirtækin ákveði verðið á grundvelli markaðslögmála eru tvenns konar:

Önnur eru þau að á markaði myndu flestar útgerðir treysta sér til að greiða hærra gjald en þingmenn telja hæfilegt. Hin eru þau að slík breyting myndi eyða nauðsynlegum fyrirsjáanleika. Fyrri rökin eru rétt en þau síðari ekki.

Pólitískur eða lögvarinn fyrirsjáanleiki

Fyrirsjáanleiki er lykilatriði í stjórnkerfi þar sem markmiðið um þjóðhagslega hagkvæmni er í öndvegi. En hver er þá munurinn á óbreyttri skipan og þeim tímabundna rétti sem leiðir af því að selja 5 prósent aflahlutdeildar á markaði ár hvert?

Í núverandi kerfi er aflahlutdeildin afturkallanleg hvenær sem er. Engin ákvæði eru um fyrirvara. Flestir lögfræðingar telja þó að dómstólar myndu ákveða einhvern uppsagnarfrest. Enginn veit þó hversu langan. Fyrirsjáanleikinn er kominn undir pólitísku mati hverju sinni. Fram til þessa hafa engar kollsteypuákvarðanir verið teknar. En hlutur smábáta hefur þó smám saman stækkað á kostnað annarra útgerða.

Með tímabundnum samningum er veiðirétturinn hins vegar lagalega tryggður í tuttugu ár í senn og á hverju ári er aldrei meira en 5 prósent aflahlutdeildarinnar í húfi á markaði.

Engum blöðum er um það að fletta að þessi lögvarði fyrirsjáanleiki er haldbetri en pólitíska vörnin.

Tvær leiðir að réttlæti

Ein leið til að mæta kröfum almennings um aukið réttlæti er að markaðsgjald verði greitt fyrir tímasettan lögvarinn fyrirsjáanleika.

Matvælaráðherra virðist hins vegar telja að fullnægja megi réttlætinu með því að færa stærri hlut til smábáta og rýra að sama skapi hlut annarra, þar á meðal lítilla veikra útgerða með aflahlutdeild.

Þetta eru pólitísku kostirnir í þessu þráláta deilumáli. Andstaðan við markaðsgjald léttir róðurinn fyrir matvælaráðherra til að ná sínu réttlæti fram.

Þeir sem tala gegn báðum leiðum hafa á endanum ekki traustara hald en kappinn í Gerplu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. september 2022