Knatthús að Ásvöllum

Góð íþróttaaðstaða fyrir börn og ungmenni í stóru hverfi sem fer ört stækkandi með uppbyggingu Skarðshlíðar og Hamraness er mikilvæg innviðauppbygging. Reikna má með tæplega 6000 nýjum íbúum í þessum hverfum. Með tilkomu knatthússins næst töluvert betri nýting á íþróttasvæðinu og því forsendur til að nýta hluta svæðisins til uppbyggingu íbúða.

Framkvæmdir að Ásvöllum eru tvíþættar, annars vegar knatthús og hins vegar bygging um 100 íbúða. Í mínum huga er ekki hægt að slíta þessar framkvæmdir í sundur þar sem framkvæmdirnar búa til nýjar tekjur fyrir bæjarsjóð.

Söluandvirði íbúðalóðar upp á tæplega 1,3 milljarða, sunnan megin svæðisins rennur til byggingar knatthússins.  Tekjur bæjarins eru að meðaltali tæp ein milljón á hvern íbúa Hafnarfjarðar. Í hverri íbúð búa að meðaltali 2,7 einstaklingar að meðaltali þannig að tekjur bæjarins ættu að aukast um rúmlega 250 milljónir króna á ári. Tilboðið sem samþykkt var í bæjarráði er upp á 3,4 milljarða. Framkvæmdin í heild sinni mun því standa undir sér og vel það og mun ekki hafa þau áhrif, sem sumir óttast, að soga til sín allt fé til fjárfestinga í íþróttamannvirkjum á næstu árum.

Það er lykilatriði að horfa til þess að tekjur bæjarsjóð af þeim íbúum sem flytja í þessar íbúðir að Ásvöllum myndu aldrei verða að veruleika nema vegna byggingu knatthússins. Að því leiti er framkvæmdin sjálfbær. Gríðarlegur fjöldi barna og ungmenna mun njóta ávinnings af þessum framkvæmdum.

Auðvitað eru skiptar skoðanir um ágæti þessara framkvæmda. Eftir stendur að þessar nýju íbúðir og þar með viðbótartekjur myndu aldrei líta dagsins ljós nema vegna byggingu knatthússins. Einnig er það ljóst að aldrei hefur verið farið í grafgötur með þá hugmynd  að spyrða þessar tvær framkvæmdir saman. Bygging þessa glæsilega mannvirkis er gerleg vegna þeirra viðbótartekna sem skapast með breytingu á landnotkun.

Við í Viðreisn höfum tekið virkan þátt í undirbúningsvinnunni vegna þessa verkefnis. Við erum ánægð að hafa náð því markmiði að byggja upp framúrskarandi aðstöðu til knattspyrnuiðkunar hér í Hafnarfirði án þess að stofna viðkvæmri fjárhagsstöðu bæjarfélagsins í hættu.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 21. október 2022