18 okt Köstum hjónabandinu á öskuhauga sögunnar
Við lifum á fordæmalausum tímum er setning sem við höfum heyrt oft á síðustu árum. Þetta á ekki bara við um alla þá fordæmalausu atburði og tækniframfarir sem við höfum upplifað undanfarin ár heldur hafa einnig orðið verulegar breytingar í okkar nánasta umhverfi; hvernig við skilgreinum og hugsum um fjölskylduna okkar og hver tilheyrir þeirri einingu.
Fjölskyldan er ekki endilega mamma, pabbi og börn sem búa saman, jafnvel með afa og ömmu, líkt og tíðkaðist á tímum afa okkar og ömmu. Fjölskylduheildin er orðin mun fjölbreyttari. Vinir okkar og skyldmenni eru ekki endilega að festa sig við einn maka heldur hafa fundið hamingjuna með mörgum einstaklingum. Fleiri og fleiri eru að opna sambönd sín fyrir því að eiga rekkjunauta utan sambandsins. Allt eru þetta hlutir sem voru mikið tabú fyrir ekki alltof mörgum árum.
Á tímum þar sem einstaklingar kjósa að haga lífi sínu og hvernig þau skilgreina fjölskyldu sína og sitt nánasta fólk á fjölbreyttari hátt en áður er kannski kominn tími til þess að ríkið endurskoði hvernig aðkoma þess er að lífi fólks og fjölskyldum, jafnvel hvort ríkið eigi yfirhöfuð að skipta sér að því hvernig við ákveðum að haga hjúskap okkar og ást.
Í öllu sem ríkisvaldið gerir, hvort sem það er að skilgreina erfðarétt, veita húsnæðisbætur, aðgengi að úrræðum til að auðvelda fólki að eignast fasteign eða ákveða umgengni við börn, miðast allt út frá því að einstaklingar séu í vel skilgreindu hjónabandi við aðeins einn annan einstakling.
Er ekki kominn tími á það að ríkið fari að ganga á sama hraða og samfélagið sem það á að sjá um og viðurkenna að við erum ekki öll vísitölufjölskylda, heldur kemur líf okkar í alls konar gerðum. Er kannski kominn tími á að við köstum hjónabandinu á öskuhauga sögunnar og byrjum að taka á móti fólki eins og það það er í allri sinni dýrð?