14 okt Mary Poppins-taska ráðherranna
Það er krefjandi áskorun að reyna að fá vit í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem er upp á 90 milljarða króna halla á sama tíma og mörg af mikilvægustu verkefnum á ábyrgð ríkisins eru vanfjármögnuð. Forgangsröðunin er þar ekki alveg í takt við stóru orðin.
Í samtali við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar fyrr í haust um nákvæmlega þetta sagðist Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vilja setja umræðuna um báknið og umfang ríkissjóðs í eðlilegt samhengi og tók dæmi af útgjöldum til heilbrigðismála. „Erum við kannski að kaupa betri lyf? Að sjálfsögðu?“ sagði fjármálaráðherra meðal annars. Fjármálaráðherra var sem sagt hæstánægður
með stöðuna.
Allt hljómaði þetta stórvel. En svo er það raunveruleikinn þar sem staðreyndir máls fá orðið. Þá vakna spurningar um raunverulega forgangsröðun stjórnvalda. Í umsögn sem forstjóri Landspítala skilaði til Alþingis vegna fjárlagafrumvarpsins kveður til dæmis við annan tón. Þar eru framlög til lyfjakaupa gagnrýnd og bent á að á meðan vöxtur til kaupa á leyfisskyldum lyfjum hafi verið 10% að meðaltali síðustu ár sé aðeins gert ráð fyrir 2% vexti í fjárlagafrumvarpinu.
Í því ljósi er ekki svigrúm til þess að taka ný og betri lyf í notkun á næsta ári enda dugi fjárveitingarnar varla til að viðhalda lyfjameðferðum sem þegar eru hafnar. Hvað þá til að tryggja aðgengi landsmanna að nýjum lyfjum í takt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Það stefnir í að hér vanti um 2,2
milljarða króna.
Ég spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvort hann deildi ánægju fjármálaráðherra með stöðu heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpinu. Hvort hann væri sáttur við forgangsröðunina. Í svari heilbrigðisráðherra kom fram að hann treystir á að við stöðunni verði brugðist í meðförum Alþingis. Þar er ekki ólíklegt að leitað verði í varasjóðinn títtnefnda sem er orðinn besti vinur ráðherra ríkisstjórnarinnar, eins konar Mary Poppinstaska sem aldrei tæmist. Vandinn er að Mary Poppins og taskan er skáldskapur, við erum að fást við raunveruleikann.
Ég spurði heilbrigðisráðherra líka hvort það ætti að sækja í varasjóðinn fjármagn til að vinna á biðlistunum sem eru að ganga frá fólki og hafa lengst þrátt fyrir þreföld kosningaloforð ríkisstjórnarinnar, klára samninga við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara og rétta af kúrsinn í
fjármögnun heilsugæslunnar. Svo fátt eitt sé talið.
Heilbrigðisráðherra er fullur vilja til að ráðast í þessi löngu tímabæru verkefni, um það er ekki efast hér. Það kostar hins vegar mikla peninga og þá er ekki að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hvaðan eiga þeir peningar þá að koma?