Öfgar

Þorsteinn Pálsson

Aðgerðir í loftslagsmálum til að ná kolefnishlutleysi hafa framkallað græna iðnbyltingu um allan heim. Íslendingar þurfa að nálgast verkefnið með því að velja leiðir, sem geta verið allt frá því að vera virkir þátttakendur í þessari byltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum til þess að slá af, horfa inn á við, draga saman orkusækna atvinnustarfsemi og líta til annarra verðmæta.“

Þetta er kjarninn í niðurstöðu trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar, Vilhjálms Egilssonar, Ara Trausta Guðmundssonar og Sigríðar Mogensen, í grænni skýrslu um áskoranir í orkumálum með hliðsjón af markmiðum í loftslagsmálum, sem birt var í marsbyrjun.

Valið

Eigi að fara fyrri leiðina að loftslagsmarkmiðunum er sameiginleg niðurstaða trúnaðarmannanna sú að tvöfalda þurfi orkuöflun á næstu tveimur áratugum og senda um það skýr skilaboð.

Það er líka sameiginleg niðurstaða þeirra að fara megi hina leiðina og minnka þörfina fyrir nýja orku með því að slá af kröfum um hagvöxt og bætt lífskjör.

Val á milli þessara tveggja leiða átti að réttu lagi að liggja fyrir í stjórnarsáttmála fyrir fimm árum.

Vegna þess að það var ekki gert komast trúnaðarmennirnir að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að fjárfestingar í orkuframkvæmdum hafi hingað til ekki fylgt eftir markmiðum í loftslagsmálum. Þetta er afar harður áfellisdómur eftir jafn langa stjórnarsetu.

Þögnin rofin

Í þá sjö mánuði sem liðnir eru frá útkomu grænu skýrslunnar hefur ríkt grafarþögn um þær pólitísku ákvarðanir, sem hún kallar á og í raun þurfti að taka fyrir fimm árum.

Vilhjálmur Egilsson formaður starfshópsins, sem skrifaði skýrsluna, rauf loks í síðustu viku þagnarbindindið með því að lýsa þeirri skoðun að velja beri fyrri leiðina, sem mætir markmiðum stjórnarsáttmálans um orkuskipti, hagvöxt og velferð.

Orri Páll Jóhannsson formaður þingflokks VG sagði af því tilefni á Alþingi að Vilhjálmur Egilsson talaði fyrir öfgafyllstu leið skýrslunnar og hefði með því endanlega gert vinnu starfshópsins að engu. Vilhjálmur sagði á móti að þessi viðbrögð sýndu að ekkert ætti að gera.

Lögmálsbrot

Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár, sem fram koma pólitísk sjónarmið úr röðum stjórnarflokkanna um val á milli leiða til þess að ná loftslagsmarkmiðunum.

Í grænu skýrslunni eru engir öfgakostir. Það verður því hvorki sagt um Vilhjálm Egilsson né Orra Pál Jóhannsson að þeir tali fyrir öfgum. En ummæli þeirra endurspegla óneitanlega gjörólíka pólitík.

Hitt er augljóst að þeir hafa báðir brotið grundvallarlögmál stjórnarsamstarfsins um pólitískan stöðugleika með því að hafa pólitíska skoðun á einu stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála.

Forgangsröðun

Til þess að ná fullum orkuskiptum með innlendri orku þarf pólitíska forgangsröðun. Það er hlutverk ríkisstjórnar að hafa forystu um hana. En það hefur hún vanrækt í fimm ár.

Ljóst er að taka þarf loftslagsvernd fram fyrir náttúrvernd eigi að halda markmiðum stjórnarsáttálans um hagvöxt og velferð.

Vilji menn hins vegar ekki forgangsraða milli loftslagsverndar og náttúruverndar er óhjákvæmilegt að láta markmiðin um hóflegan grænan hagvöxt víkja og að sama skapi slá af kröfum um vaxandi kaupmátt og velferð.

Ríkisstjórnin er að hefja sjötta starfsár sitt án þess að kynna kjósendum hver forgangsröðunin er.

Erfitt er að finna samjöfnuð við jafn langt ákvarðanaleysistímabil um jafn mikilvægt málefni. Það eru reyndar einu pólitísku öfgarnar í stöðunni.

Hvað svo?

Hvað gerist í framhaldinu? Svar: Lítið.

VG mun þæfa ákvarðanir um nýja orkuöflun. Í besta falli verða teknar ákvarðanir á þessu kjörtímabili um fimmtung þeirrar orku, sem þarf næstu sautján ár til að fara megi fyrri leiðina.

Umhverfisráðherra virðist hafa metnað til að fylgja eftir stefnu Vilhjálms Egilssonar. En á endanum er líklegast að hann verði að sætta sig við þanþol VG.

Afleiðingarnar verða tvenns konar:

Ísland mun ekki ná fullum orkuskiptum á tilsettum tíma.Minni líkur eru á að hagvöxtur með grænni iðnbyltingu verði nægur til að standa undir kjarasamningum og nýjum tekjum til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Ákvarðanaleysið er dýrkeypt þó að það tryggi pólitískan stöðugleika við ríkisstjórnarborðið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. október 2022