Tilvísun eða frávísun

Þorsteinn Pálsson

Hvort er nú meiri þörf á að vísa fólki til landsins eða frá því?

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarástandi á landamærum Íslands vegna fjölda fólks á flótta. Í fyrsta sinn hafa verið opnaðar flóttamannabúðir á Íslandi. Þetta er það sem að okkur snýr þegar flóttamenn hafa ekki verið fleiri í heiminum síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk. Stjórnvöld hafa ekki náð tökum á viðfangsefninu.

Athyglin

Nefnd þingmanna er nýkomin úr kynnisferð til Norðurlanda þar sem hún átti samtöl um innflytjendapólitík. Sú upplýsingamiðlun um innflytjendamál, sem jafnan vekur mesta athygli, eru sjónvarpsviðtöl við fólk, sem vísa á úr landi. Þau eru oft tvöfalt lengri en forsætisráðherra fær. Eðlilega skilja þau eftir heitar tilfinningar.

Tilfinningaumræða getur svo bæði eflt samúð og kynt undir úlfúð. Innflytjendamál hafa lengi verið eldfim pólitík í Skandinavíu. Við höfum aftur á móti að mestu leitt þau hjá okkur að frátöldum umræðum um einstakar brottvísanir.

Þörf

Að baki móttöku flóttamanna og fólks sem sækir hér um alþjóðlega vernd liggja mannúðarsjónarmið. Á þeim siðferðilegu forsendum höfum við tekist á hendur alþjóðlegar skuldbindingar. Hér eins og annars staðar sæta þær þó skorðum, jafnvel þótt þörfin fyrir fleira fólk sé augljós.

En miklu fleiri innflytjendur eru hér af öðrum ástæðum: Við höfum einfaldlega efnahagslega þörf fyrir þá. Vinna þeirra og flóttamanna er forsenda fyrir hagvexti og velferð í landinu. Útlendingaandúð samræmist því ekki óskum um betri lífskjör. En það breytir ekki hinu að full þörf er á ríkari málefnalegri umræðu um þessi efni en verið hefur.

Á reiki

Reglur um flóttafólk og framkvæmd þeirra þurfa til að mynda að fela í sér ótvíræð skilaboð um það hvar mörkin liggja. Löggjöf um aðra innflytjendur þarf að sama skapi að byggja á stefnu og skýrum markmiðum. Hvort tveggja er um of á reiki.

Aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins tryggir frjálsa för fólks á milli aðildarríkja. Það hefur reynst mikil hjálparhella fyrir efnahag landsins.

En nú virðist draga úr hreyfingu fólks milli Evrópulanda. Það kallar á viðbótarúrræði.

Tímamót

Nýr mannauður er heiti á skýrslu, sem Berglind Ásgeirsdóttir fyrrverandi ráðuneytisstjóri og sendiherra hefur samið. Þar birtist ný sýn á nauðsyn og mikilvægi markvissrar innflytjendastefnu.

Skýrslan markar tvímælalaust tímamót í málefnalegri umræðu um þessi efni. Í henni er ekki fjallað um kvótaflóttamenn og þá sem óska eftir alþjóðlegri vernd.

Höfundur telur hins vegar að Ísland geti stóraukið samkeppnishæfni sína á alþjóðavettvangi með því að skapa aðstæður, sem laði hingað hæfileikaríkt fólk og nýta betur þann mannauð af erlendum uppruna, sem þegar er í landinu.

Umskipti

Fyrir aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins hafði fjöldi útlendinga um áratugi verið undir 2 prósentum. Í dag er þessi tala komin yfir 17 prósent. Það er ekki víðsfjarri því að jafngilda hálfri Reykjavík.

Höfundur gerir líka grein fyrir framtíðarhorfum. Hagstofan áætlar að á næstu tíu árum fjölgi starfsfólki á vinnualdri um 34 þúsund. Náttúruleg fjölgun íbúa mun aðeins fylla 6 þúsund þeirra starfa og standa undir 0,5 prósenta hagvexti. Samtök atvinnulífsins telja að á næstu fjórum árum þurfi 12 þúsund útlendinga inn á vinnumarkaðinn. Samtök iðnaðarins ætla að á næstu fimm árum þurfi 4.500 erlenda sérfræðinga einungis fyrir hugbúnaðargeirann.

Tölur Hagstofunnar miða við 2,5 prósenta hagvöxt. Ef við horfum bara á það verkefni að borga niður skuldir ríkissjóðs þarf hagvöxtur að verða talsvert meiri.

Kortlagning

Ábending skýrsluhöfundar um nauðsyn þess að móta skýra og markvissa innflytjendastefnu er sannarlega tímabær. Tillögur hennar byggja á rannsóknum við háskóla í Kanada og reynslu frá starfi sem aðstoðarframkvæmdastjóri OECD. Augljóslega þarf að ryðja mörgum hindrunum úr vegi en líka auðvelda aðlögun þessara mikilvægu borgara að íslensku samfélagi. Tungumálið er þar í lykilhlutverki.

Engum blöðum er um það að fletta að við þurfum að vísa fólki veginn til landsins og kortleggja bæði leiðina og aðlögunina. Þetta er mikilvægt pólitískt verkefni, sem kallar á forystu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. október 2022