21 nóv Í félagsskap spillingar eða frelsis?
Sumarfríið í Frakklandi 2016 er enn í fersku minni. Við konan mín, dætur okkar, aðrir úr nánustu fjölskyldu og vinir áttum þar saman frábæra daga. Fótboltaveisla EM og fjölskyldufrí. Hvað getur klikkað?
Nú er heimsmeistaraboltinn farinn að rúlla í Katar og listinn yfir það sem getur klikkað lengist daglega. Til að verja valið á sínum tíma lofaði FIFA að sambandið myndi krefjast umfangsmikilla úrbóta varðandi kerfisbundin mannréttindabrot stjórnvalda. Þá átti mótið að verða fyrsta kolefnishlutlausa heimsmeistaramótið. Og stjórn FIFA þóttist trúa því að stjórnvöld í Katar gætu ráðið veðurfarinu svo hægt yrði að halda mótið að sumarlagi þegar hitinn er alla jafna óbærilegur þar í landi. Nú er ljóst að FIFA hefur gefið svo hraustlegan afslátt af skilyrðunum að ekki virðist einu sinni vilji til að tryggja sæmilega öryggi þeirra sem mæta.
Töluvert hefur verið fjallað um hörmulegar aðstæður farandverkamanna sem unnu að uppbyggingu í Katar en talið er að mörg þúsund þeirra hafi látið lífið. Ekki tókst FIFA að tryggja öryggi kvenna sem störfuðu við skipulagningu. Hin mexíkóska Paola Schiekat þurfti að flýja land eftir að hafa tilkynnt nauðgun af því að með því varð hún, samkvæmt katörskum yfirvöldum, sek um að stunda kynlíf utan hjónabands og átti yfir höfði sér sjö ára fangelsisvist. Þá er samkynhneigð ólögleg í ríkinu og yfirvöld í Katar hafa enga viðleitni sýnt til að tryggja öryggi hinsegin fólks á meðan á mótinu stendur.
Í síðustu viku birtu samtökin Carbon Market Watch skýrslu sem sýnir að Katar er langt frá því að uppfylla loforð sín um kolefnishlutleysið. Kannski verður það svo bjórdropinn sem endanlega fyllir mælinn en rétt fyrir helgi tóku yfirvöld í Katar U-beygju varðandi bjórsöluámótinu þar sem þau tilkynntu þvert á fyrri fyrirheit að aðeins óáfengir drykkir yrðu til sölu á leikvöngunum, með einhverjum undanþágum þó fyrir útvalda.
Hvað sem öllu þessu líður er staðreynd að boltinn er farinn að rúlla í Katar. Þá er vissulega hætt við að fátt annað komist að og stjórnvöldum í Katar takist að baða sig í jákvæðri athygli. En vaxandi þungi í gagnrýninni, af hálfu almennings og í kjölfarið auglýsenda, gefur ákveðin fyrirheit um að hér hafi botninum verið náð. Að alþjóðlega fótboltahreyfingin muni slíta á tengsl við sérhagsmuni, spillingu og græðgi og nota styrk sinn til að halda á loft áherslu á frelsi og mannréttindi. Það er í þeim félagsskap sem fótboltaíþróttin á heima. Frjáls lýðræðisríki eiga ekki að gefa neinn afslátt þar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2022