06 des Veltum við hverri krónu
Hagræðing er nauðsynlegur þáttur af opinberum rekstri. Síðan Viðreisn kom í meirihluta borgarstjórnar árið 2018 hefur verið árleg hagræðingarkrafa upp á 1% af launakostnaði ásamt því að hætta að verðbæta rekstrarkostnað. Með þessu setjum við á okkur stöðuga pressu, bæði á að velta við hverri krónu og að hafa það ætíð í huga að við sem stýrum opinberum rekstri erum með almannafé í okkar vörslu. Nú er svo komið að grípa verður til enn sterkari aðgerða.
Aldrei skemmtilegt, en afar nauðsynlegt
Fram undan er óvissa og engin góðærisár virðast sjáanleg. Í þeirri fjárhagsáætlun sem til umræðu er í borgarstjórn í dag gerum við ráð fyrir vexti en við stígum einnig ákveðin á bremsuna hvað varðar reksturinn.
Rekstur langflestra sveitarfélaga hefur verið afar þungur. Reykjavík er þar engin undantekning en hér hefur verið haldið uppi öflugri grunnþjónustu á undanförnum misserum þrátt fyrir erfiðleika. Þjónustustig borgarinnar hefur verið það hæsta sem gerist á landinu. Við leggjum nú áherslu á verkefnamiðaða hagræðingu. Það þýðir að við höfum velt við hverri krónu, skoðað hvað við getum hætt að gera, hvað við viljum leggja niður, sameina eða endurskipuleggja.
12 milljarða breyting
Með þeim 92 tillögum um hagræðingu og umbótatillögum sem við leggjum fram í dag, ásamt þeirri föstu hagræðingarkröfu sem hefur þegar verið ákveðin, munum við draga úr rekstrarkostnaði um rúmlega þrjá milljarða. Fjárfestingaráætlun næsta árs hefur einnig verið lækkuð um níu milljarða frá fyrri áætlunum. Samanlagt er þetta breyting upp á 12 milljarða.
Minnihlutanum í borgarstjórn hefur orðið tíðrætt um að hagræðingartillögurnar séu takmarkaðar og dugi ekki til. En lítið hefur heyrst af góðum sparnaðartillögum frá þeim, nema endurnýttar og fyrirsjáanlegar hugmyndir um að fækka starfsfólki í miðlægri stjórnsýslu og lækka laun borgarfulltrúa.
Þegar aðgerðir meirihlutans eru skoðaðar má sjá þó nokkrar tillögur sem draga úr kostnaði við miðlæga stjórnsýslu. En það er ekki á dagskrá hjá okkur að lækka hvort heldur laun starfsmanna borgarinnar né borgarfulltrúa. Það sem við höfum hins vegar gert er að setja skýr markmið um hvernig við drögum úr launakostnaði í samræmi við markmið fjármálastefnu borgarinnar. Aðgerðir í ráðningarmálum eiga þó ekki við störf í framlínu, svo sem í skóla- og frístundaþjónustu eða í velferðarþjónustu.
Hlúum að grunnþjónustunni
Um leið og farið er í hagræðingu og aðhald í rekstri verður lögð áhersla á lögbundin verkefni sveitarfélaga, þeim sýnd alúð og athygli með það að markmiði að fjármögnun og stjórnun sé sem réttust og í góðu jafnvægi. Það eykur stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstrinum sem hefur bein áhrif á starfið og gæði þjónustunnar hvort sem það eru menntamál, velferðarmál eða uppbyggingarmál. Við munum nú sem áður hlúa að grunnþjónustu sveitarfélagsins, það er þar sem kjarnaverkefni sveitarfélaga liggur.