Aldrei spurt

Jón Steindór Valdimarsson Alþingiskosningar Reykjavík Norður RN 2 sæti Viðreisn

Ísland hefur allt frá því það varð sjálfstætt og fullvalda fikrað sig áfram í alþjóðlegri samvinnu og gerst aðili að mikilvægum alþjóðlegum samningum og stofnunum.

Að tryggja sinn hag

Tilgangurinn er ávallt sá að tryggja hagsmuni Íslands, vinna að sameiginlegum markmiðum og verkefnum til að leysa úr vanda eða koma í veg fyrir hann. Fullveldi Íslands sé best tryggt með því að sitja við þau borð þar sem reglur eru mótaðar og ákvarðanir teknar.

Fyrir allar þjóðir, ekki síst hinar minni, er lífsnauðsynlegt að net stofnana og samninga sé sem þéttast og taki til sem flestra þátta er lúta að samskiptum og leikreglum á alþjóðavettvangi. Með því móti er reynt að koma í veg fyrir að þeir sem stærri eru og voldugri beiti afli til að ná sínu fram.

Mörg farsæl skref

Ísland er í hópi fámennustu ríkja heims en er að mörgu leyti afar vel sett frá náttúrunnar hendi og hefur tekist að skipa sér mjög framarlega á marga mælikvarða. Það hefur mörgu að miðla og getur borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi.

Hér verða ekki talin upp öll þau skref sem stigin hafa verið og þeir hagsmunir sem hafa verið undir né sá mikli ávinningur sem Ísland hefur haft af því að vera virkur þátttakandi. Eins og gengur hafa sum þeirra skrefa verið tekin hratt og örugglega en önnur verið hikandi, sum nær óumdeild en önnur mjög umdeild. Heilt yfir hefur þó reynslan sýnt að þau hafa reynst þjóðinni farsæl.

Vandi þiggjandans

Á viðskiptasviðinu ber helst að nefna aðild Íslands að EFTA, fríverslunarsamning við Evrópusambandið og síðar EES-samninginn, en senn verða 30 ár frá því að hann tók gildi. Sá samningur er raunar miklu meira en viðskiptasamningur og snertir ótrúlega marga þætti daglegs lífs almennings og reksturs fyrirtækja. Í honum felast tækifæri og réttindi sem flest okkar taka sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut. Hitt hugsa færri um eða vita að án samningsins væru þau ekki fyrir hendi. Þá er gott að minna á að EES-samningurinn er í raun aðgöngumiði að stórum hluta þess mikla starfs sem Evrópusambandið hefur unnið í fortíð, nútíð og mun vinna áfram.

Sá hængur er hins vegar á þessu fyrirkomulagi að hér tökum við einungis við því sem að okkur er rétt en tökum hvorki þátt né höfum áhrif á framvinduna. Það er ekki lengur sæmandi sjálfstæðri og fullvalda þjóð.

Við eigum að taka fullan þátt í að móta Evrópu og njóta þeirra hagsbóta sem í fullri aðild felast. Það er því bæði eðlilegt og sjálfsagt að Íslendingar velti því sífellt fyrir sér hvort ekki sé rétt að stíga eitt skref enn og gerast fullgildur aðili að ESB.

Þjóðin vildi en pólitíkin ekki

Með umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu þann 23. júlí árið 2009 var stærsta skrefið í vegferð okkar til aukinnar evrópskrar samvinnu stigið en sú ferð var stöðvuð skyndilega árið 2013 þegar viðræðum var hætt í miðjum klíðum. Með bréfi til ESB þann 12. mars 2015 var ítrekað að þeim yrði ekki haldið áfram. Ákvörðunin um að stöðva viðræðurnar sem Alþingi hafði sett af stað var afar umdeild og varð tilefni mikilla mótmæla og einnar stærstu undirskriftasöfnunar sem gerð hefur verið undir slagorðinu: Við viljum kjósa!

Ekkert mark var tekið á þessum mótmælum, undirskriftum eða skoðanakönnunum sem bentu skýrt til þess að ekki væri farið að vilja meirihluta þjóðarinnar og borið við pólitískum ómöguleika eins og frægt er orðið.

Bylgjan rís

Nú rís bylgja almennings sem krefst þess að vera spurður um hvort taka eigi upp aðildarviðræður við ESB að nýju. Þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um málið til þess að leiða fram þjóðarviljann með skýrum hætti. Sömuleiðis benda kannanir eindregið til þess að viðhorfsbreyting sé að verða meðal almennings og að meirihluti sé að verða fyrir því ganga í Evrópusambandið.

Staðreyndin er sú að þjóðin hefur aldrei verið spurð beint að því hvað hún vill í þessum efnum. Því vill Evrópuhreyfingin breyta. Deilir þú þeirri skoðun skaltu ganga til liðs við okkur á www.evropa.is.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. febrúar 2023