Notendur með

Fyrir nokkrum árum síðan var sett upp notanda- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar þar sem sitja fulltrúar hinna ýmsu hagsmunaðila fólks ásamt fulltrúum borgarinnar og ræða þau mál sem viðkoma fötluðu fólki. Sambærileg notendaráð eru um allt land enda lagaskylda að koma á slíkum samráðsvettvöngum. Í Reykjavík hafa margar góðar hugmyndir komið fram sem geta reynst vel. Sem dæmi má nefna tvær nýlegar og einfaldar hugmyndir sem til umræðu eru á þessum samráðsvettvangi í Reykjavík. Í fyrsta lagi að svokölluð „sólblómahálsmen verði fáanleg í Húsdýragarðinum og í öðru lagi að upplýsingar um almennan opnunartíma innilauga verði aðgengilegur á heimasíðu borgarinnar.

Fólk með ósýnilegar fatlanir eigi auðveldara með aðgengi

Tilgangur sólblómahálsmenanna er að gera fólki með ósýnilegar fatlanir sem og fólki sem þarf aukið tillit auðveldara að fara um garðinn og njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða. Stefnt er af því að þau verði til útláns í garðinum. Það mun auðvelda aðgengi að garðinum og vonandi verða til þess að fleiri geti notið þess að heimsækja hann. Slík sólblómabönd eru nú þegar fáanleg á Keflavíkurflugvelli og segja þau sem notað hafa böndin hafa góða reynslu af þeim. Tilgangur þess að varpa fram þessari hugmynd hér er ekki síst sá að fá fram umræðu um hvort fleiri opinberir staðir á borð við Hörpu tónlistarhús ættu að skoða það að taka upp þessa einföldu hugmynd sem auðveldar verulega aðgengi fatlaðs fólks.

Hugmyndir þurfa ekki að vera flóknar

Með því að hafa upplýsingar um opnunartíma innilauga í Reykjavík er auðveldara fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir kulda að nýta sér sundlaugarnar þegar tækifæri gefst. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að sund getur gagnast einstaklingum með margs konar vanda bæði í þjálfunarskyni og til hreyfingar. Það er því mikilvægt að aðgengið sé sem oftast til staðar, en sé ekki háð veðri og vindum eða því að fólk sé að æfa sund reglulega á skipulögðum æfingum. Þessar hugmyndir eru dæmi um hugmyndir sem komið hafa frá fulltrúum í nefndinni sem náðst hefur að koma á framfæri. Jafnframt sýnir það mikilvægi þess að hafa notendurnar sjálfa með og fá til þess stuðning ef þeir þurfa. Höldum áfram að efla notendur og fáum þá með.

Greinin birtist fyrst á Vísi 28. febrúar 2023