„Það er til nóg af flug­vélum í landinu“

Atburðarásin sem fór af stað þegar greint var frá áformum dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslunnar hefur verið áhugaverð, vægast sagt. Enda gerist það ekki oft, fáeinum vikum eftir samþykkt fjárlaga, að ráðherra tilkynnir einhliða um aðgerð í sparnaðarskyni sem dregur úr öryggi allra landsmanna. Ekkert var um þetta rætt í fjárlagagerðinni og ekki einu sinni haft fyrir því að biðja um heimild til sölu á þeirri ríkiseign sem flugvélin er.

Eðlilega hafa áformin sem slík, og vinnubrögðin, sætt harðri gagnrýni frá Landhelgisgæslunni, vísindasamfélaginu og þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu. Í þessu ljósi er áhugavert að verða vitni að hvað samráðherrar dómsmálaráðherra hafa verið utan gátta og úr takti við flokksfélaga sína og samfélagið allt. Þetta var nefnilega rætt í ríkisstjórn og engar athugasemdir gerðar við áformin þar.

Sennilegast er þetta skýringin á því hvers vegna ráðherrabekkurinn á Alþingi hefur verið þögull, lúpulegur og starað i í gaupnir sér undir ræðum þingmanna sem hafa fordæmt þetta, allir sem einn. Sennilega yrði tillaga um söluna felld með atkvæðum allra þingmanna nema ráðherrana tólf, væri hún borin upp í þinginu. Veiklulegt muldur í baksýnisspeglinum er ekki sannfærandi.

Þetta er augljóslega partur af stærra vandamáli. Einstaka ráðherrar og stundum ríkisstjórnin öll, gengur út frá því í ýmsum risastórum grundvallarmálum að samþykki þingsins sé bara formsatriði. Það þurfi ekki einu sinni að fá heimild þingsins áður en vaðið er af stað með gassagangi, eins og dómsmálaráðherra hefur reyndar sérhæft sig í. En ríkiseigur eru hvorki keyptar né seldar nema með skýrri heimild þingsins.

Vísindasamfélagið og almannavarnir hafa sem betur fer spyrnt við fæti og útskýrt vel fyrir okkur af hverju þessi flugvél skiptir grundvallarmáli. Sérhæfður tækjabúnaður er þar lykilatriði. Dómsmálaráðherra virðist ekki vita af þessum búnaði, né til hvers hann er notaður, því hann sagði orðrétt í þinginu í gær að “það vill nú svo til að það er til nóg af flugvélum í landinu.”

Þetta yfirgripsmikla vanmat ráðherrans á hlutverki flugvélarinnar fær mann til að halda að hann sé vís til að kaupa hopphjól fyrir gæsluna í stað vélarinnar. Án þess að sækja um heimild, að sjálfsögðu.

Greinin birtist fyrst á Vísi 3. febrúar 2023