01 mar Auðlindin okkar og ESB
Starfshópur Auðlindarinnar okkar hefur nú kynnt bráðabirgðaniðurstöður sínar og lagt fram 60 tillögur til úrbóta þar sem markmiðið er fyrst og fremst að auka sjálfbærni í sjávarútvegi. Skrefin sem horft er til eru þrjú, þ.e. bætt umgengni við umhverfið, hámörkun verðmæta og sanngjarnari skipting þeirra verðmæta sem sjávarútvegsauðlindin gefur af sér.
Tillaga 34 snýr að hámörkun verðmæta með því að ná fram hagstæðari tollasamningum/fríverslunarsamningum. Þarna er á það bent að fríverslunarsamningurinn við ESB er frá árinu 1994 og þegar hann var undirritaður féllu 98% af útflutningsafurðum undir hann. Vegna breytinga sem orðið hafa í íslenskum sjávarútvegi nær samningurinn einungis til 64% útflutningsafurða íslensks sjávarútvegs.
Þrátt fyrir yfirlýsingar þáverandi utanríkisráðherra skilaði útganga Breta úr ESB engu hvað þetta varðar. Þar er enn verið að miða við samninginn frá 1994. Tollalaus viðskipti inn á þennan markað myndu skila milljörðum til viðbótar í þjóðarbúið sem gætu þá gagnast til þess að reka það velferðarsamfélag sem við viljum að hér sé til staðar
Þá er einnig á það bent að samkeppnisstaða íslenskrar fiskvinnslu sé slæm m.a. vegna þess að ESB styrkir fiskvinnslu innan sambandsins. Nái erlendar fiskvinnslur upp sama tæknistigi og þær íslensku mun samkeppnisstaða íslenskrar fiskvinnslu verða enn verri. Niðurstaðan af slíkri þróun getur aldrei orðið önnur en sú að störf verða flutt úr landi og hagnaður af íslenskum sjávarútvegi skilar sér í minna mæli inn í íslenskt samfélag. Það getur auðvitað ekki gengið að þeir sem ráði yfir fiskveiðiauðlindinni hagnist meira á því að flytja fiskinn óunninn úr landi og að við glötum störfunum sem eiga að verða til hér innanlands með fullnýtingu sjávarafurða.
Hér má svo augljóslega sjá að staða okkar utan ESB er að skaða okkur. Þetta er bara enn eitt dæmið af mörgum um að hagsmunum Íslendinga er betur borgið innan ESB en utan.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. mars