Þjóðar­sátt um eitt­hvað

Þorsteinn Pálsson

Fá hug­tök hafa jafn já­kvæða skír­skotun og þjóðar­sátt. Það á rætur í vel­heppnaðri kerfis­breytingu fyrir 33 árum.

Að­gerðin fékk ekki heitið þjóðar­sátt fyrir fram. Það gerðist þegar í ljós kom að hún skilaði góðum árangri bæði fyrir launa­fólk og fyrir­tæki.

Þjóðar­sáttin byggðist ekki á vin­sælda­að­gerðum eins og auknum milli­færslum og skatta­lækkunum. Kjarninn í óskum for­ystu­manna launa­fólks og at­vinnu­rek­enda snerist hins vegar um grund­vallar­um­skipti í efna­hags­lífinu: Að fast­gengi yrði fest í sessi í stað sveigjan­legrar gengis­stefnu.

Þessu fylgdu nokkrar hliðar­ráð­stafanir. Á grunni þessarar miðju­hug­mynda­fræði var unnt að tryggja stöðug­leika og verja kaup­mátt með hóf­sömum kjara­samningum í ára­tug.

Vin­sælda­að­gerðir

Þjóðar­sáttar­hug­takið hefur síðan skotið upp kolli með reglu­legu milli­bili án þess að menn hafi velt mikið fyrir sér um hvað sáttin ætti að snúast.

Nú er hald flestra að þjóðar­sátt felist í því að ríkis­sjóður taki á sig í einu eða öðru formi þær launa­kröfur, sem at­vinnu­lífið segir að verð­mæta­sköpun þjóðar­búsins standi ekki undir.

Vin­sælar ráð­stafanir af þessu tagi eru skamm­góður vermir. Verð­bólgu­á­hrif af inni­stæðu­lausum launa­hækkunum koma fram strax. En séu vin­sælar lausnir ríkis­sjóðs ekki að fullu fjár­magnaðar, með ó­vin­sælum að­gerðum, koma verð­bólgu­á­hrifin bara fram síðar.

Þetta er ein skýringin á því að við búum nú við jafn mikla verð­bólgu og þær þjóðir sem glíma við orku­kreppu.

Skekkjur

Þjóðar­bú­skapurinn blómstrar. En samt eru í honum skekkjur, sem valda mis­rétti og draga úr hag­kvæmni. Af­leiðingarnar koma meðal annars fram í minni hag­vexti á mann en í grann­löndunum, ó­stöðug­leika og ó­kyrrð á vinnu­markaði.

Á upp­gangs­árunum eftir seinna stríð vorum við með svo­kallað fjöl­gengi. Gengi krónunnar var mis­jafnt eftir því hvað menn voru að fást við. Nú notum við marga gjald­miðla. Þetta veldur sams konar sam­keppnis­skekkju í at­vinnu­lífinu.

Lengi vel greiddu fyrir­tæki mis­munandi vexti eftir pólitískum á­kvörðunum. Nú búa venju­leg lítil og meðal­stór fyrir­tæki í allt öðru vaxta­hag­kerfi en út­flutnings­fyrir­tækin. Seðla­banki Ís­lands stjórnar öðru en Seðla­bankar Evrópu og Banda­ríkjanna hinu.

Mis­réttið bítur svo enn fastar þegar kemur að ungu fólki. Það borgar með vöxtum þrjár í­búðir en fær eina. Í Dan­mörku borgar það eina og hálfa íbúð og fær eina eins og ís­lensk út­flutnings­fyrir­tæki.

Pils­falda­kapítal­ismi

Eftir stríð vorum við með gjald­eyris­höft og inn­flutnings­höft. Nú erum við ekki með inn­flutnings­höft en rúm­lega heila þjóðar­fram­leiðslu í gjald­eyris­höftum vegna tak­markana á er­lenda fjár­festingu líf­eyris­sjóða. Engin vest­ræn þjóð er með jafn um­fangs­mikil gjald­eyris­höft.

Þetta veldur því að gamla krónan er ó­hæfur mæli­kvarði á hag­kvæmni og verð­mæta­sköpun. Þess vegna verða út­flutnings­fyrir­tækin að nota er­lendar myntir.

Í annan stað valda þessi gjald­eyris­höft því að skatt­peningar al­mennings í líf­eyris­sjóðum eru uppi­staðan í eigin­fé allra banka og allra helstu fyrir­tækja í við­skiptum við bankana. Þetta er mesti pils­falda­kapítal­ismi á Vestur­löndum.
Þrjár leiðir

Hvað er til ráða?

Ein leið er að hjakka í sama farinu. Hitt er bara spurning um tíma hve­nær það endar með ó­sköpum. Ríkis­stjórnin er á þeirri veg­ferð.

Önnur leið er kerfis­breyting eins og 1960 og 1990 með fé­lags­legum hliðar­ráð­stöfunum. Nýr stöðugri gjald­miðill, jafnari sam­keppnis­staða, af­nám fjár­magns­hafta og aukið einka­fjár­magn í at­vinnu­lífinu. Við­reisn talar fyrir miðju-hug­mynda­fræði af þessu tagi.

Þriðja leiðin er að fara lengra til vinstri með milli­færslum eins og í gamla daga. Þá verða út­flutnings­fyrir­tækin í hag­stæða vaxta­hag­kerfinu skatt­lögð til að færa peninga til ungra hús­næðis­kaup­enda í ó­hag­stæða vaxta­hag­kerfinu. Sam­fylkingin kú­venti frá kerfis­breytinga­leið yfir í þessa milli­færslu­leið í haust sem leið.

Valið

Við­reisn og Sam­fylking skil­greina skekkjuna í hag­kerfinu og mis­réttið eins, en velja ó­líkar hug­mynda­fræði­legar lausnir.

Milli­færslu­leiðin er betri en að hjakka í sama farinu, en er samt arfa­vit­laus hag­fræði. Það er skyn­sam­legra og hald­betra að ná fram bæði rétt­læti og heil­brigðu efna­hags­um­hverfi með kerfis­breytingu.

Lík­legt er að for­sætis­ráð­herra reyni fremur að þróa þjóðar­sáttar­um­ræðuna í átt að vinstri lausnum Sam­fylkingar en miðju­hug­mynda­fræði Við­reisnar. Spurningin er hversu langt sjálf­stæðis­menn og fram­sóknar­menn eru til­búnir að fara í þá átt.

Svo gætu kjós­endur bara valið leið í næstu kosningum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2023