17 mar Tilbúin í sumarið
Það er vor í lofti þrátt fyrir kuldatíð. Sólin og norðurljósin skiptast á að létta okkur lund og skipulagning sumarleyfa er farin af stað á flestum heimilum.
Með hækkandi sól kemur hlýr blær að sunnan og trén verða græn á ný.
Við vitum fyrir víst að bráðum verður Austurvöllur stappaður af ungu fólki með sólgleraugu og frisbídiska, þótt bjórinn sé dýrari en í fyrra.
Margar fjölskyldur munu líka baða sig í enn meiri sól og hlýjum sjó í öðrum löndum þrátt fyrir að útlandaferðir verði áfram efst á bannlista Seðlabankans.
Enda vita landsmenn vel að verðbólgunni er haldið uppi af hallarekstri ríkisins en ekki af kokteilum á Tenerife.
Friedman fór ekki með neitt fleipur þegar hann benti á að verðbólgan er alltaf á ábyrgð stjórnvalda en ekki fólksins í landinu.
Þrátt fyrir úrræða- og aðgerðaleysi stjórnvalda í efnahagsmálum léttist brúnin víða við það eitt að sumarið er nú á næsta leiti. Þannig virkar þetta hjá okkur hér í norðrinu þegar loksins sér fyrir endann á dimmum vetri.
Það er hins vegar ekki að sjá að ríkisstjórnin átti sig á því hversu stutt er í sumarið. Af áramótaheitunum hennar, þingmálaskránni, eru enn þá 107 mál útistandandi.
Fresturinn til að leggja málin fram styttist hratt, en 1. apríl næstkomandi er síðasti dagurinn til leggja fram ný frumvörp á vorþingi.
Þessi frestur er hafður til að tryggja að þinginu gefist tími til að fullvinna mál fyrir sumarhlé í júní.
Meðal mikilvægra mála af þingmálaskránni sem enn hefur ekkert frést af, eru aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk, fjölmiðlastefna, lög um almenningssamgöngur og lög um vindorku.
Þessi staða er kannski ekki merki um kæruleysi stjórnvalda heldur frekar merki þess að samstaðan, eða öllu heldur skortur á henni, standi ráðherrunum í vegi.
Það væri óskandi að með hækkandi sól sæjust merki um ríkisstjórn sem nær að skapa samstöðu á þingi til að vinna með sóma þær mikilvægu umbætur sem fólkið í landinu kallar eftir.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. mars 2023