17 mar Unga fólkið getur ekki keypt íbúð
Hækkun fasteignaverðs síðustu 10 ár er ævintýraleg og hefur hækkað um rúmlega 100% að raunvirði. Hækkunin á hinum Norðurlöndunum er um fjórðungur. Það er erfiðara en áður að eignast húsnæði. Ungt fólk tapar mest á þessu ástandi. Verð á 120 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu jafngildir nú rúmlega 13 árstekjum einstaklinga að meðaltali eins og fram kemur í gögnum BHM. Fólk á leigumarkaði býr við erfiðar aðstæður og kannanir sýna að fólk á leigumarkaði hefur sjaldnast valið sér að leigja og vill frekar geta keypt.
Í fyrsta sinn síðan í september 2009 er verðbólga komin yfir 10%. Á árinu munu enn fleiri lenda í vandræðum með að ná endum saman þegar um 4500 heimili losna undan föstum vöxtum óverðtryggðra lána. Þessara heimila bíða þungar vaxtahækkanir sem auðvitað hafa mikil áhrif á afkomu þessara fjölskyldna. Vextir á húsnæðislánum eru mun hærri en í nágrannaríkjunum, enda staðreynd að á Íslandi þarf að hækka vexti margfalt til að taka á svipaðri verðbólgu og í nágrannaríkjunum. Ríkisstjórnin talar um verðbólga sé stærsti óvinur almennings en viðbrögðin eru þrátt fyrir það engin. Ríkisstjórnin fór raunar þá leið að hella bensíni á bálið með því að hækka öll gjöld um áramótin sem jók verðbólgu og útgjöld heimila og fyrirtækja.
Vaxtahækkanir 11 sinnum í röð hafa þær afleiðingar að byggingabransinn er á leið í frost því eftirspurn er að hverfa. Næstu árgangar komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn. Á sama tíma er engin raunveruleg húsnæðisstefna hjá ríkisstjórninni og afleiðingin blasir: flestu ungu fólki er ómögulegt að kaupa íbúð ef pabbi eða mamma geta ekki hjálpað. Það er ekki jafnt gefið. Það er alltaf að verða skýrara að almenni markaðurinn leysir vandamálið ekki. Til þess þarf félagslegt kerfi af hálfu hins opinbera sem tekur á þeirri þörf sem kemur inn á húsnæðismarkaðinn á hverju ári. Húsnæðismarkaðurinn er viðvarandi verkefni stjórnvalda en ekki málefni sem hægt er að leysa með átaksverkefnum við og við.
Það á ekki að vera forsenda þess að geta keypt íbúð að eiga pabba og mömmu sem hlaupa undir bagga. Húsnæðisstefna í þá veruna fléttar saman skynsamlegri hagstjórn, velferð og réttlæti.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. mars 2023