02 mar Verkfærakassi ríkisstjórnarinnar
Vonandi sér nú fyrir endann á kjaradeilum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Ýmsir atvinnurekendur hafa þó lýst yfir áhyggjum af því að geta ekki haldið rekstrinum gangandi með auknum launakostnaði ofan á álögur sem hafa farið vaxandi undanfarið. Þetta á sérstaklega við í tilviki smærri vinnuveitenda.
Á meðan launafólk greiðir atkvæði um nýja miðlunartillögu ríkissáttasemjara er rétt að leiða hugann að því sem stjórnvöld gætu lagt gott til málanna. Ríkisstjórnin hefur í hendi sér fjölmörg verkfæri til að miðla málum. Til dæmis gæti hún lækkað tryggingagjald, sem er hlutfall af greiddum launum og hækkar þannig kostnað launagreiðenda umfram kjarahækkanir. Hún gæti líka lækkað áfengisgjald, sem myndi helst gagnast fyrirtækjum í veitingarekstri.
Annað verkfæri ríkisstjórnarinnar er lækkun virðisaukaskatts sem myndi bæta kjör almennings og draga þannig úr þörf á launahækkunum. Virðisaukaskattur á Íslandi er þegar sá næsthæsti meðal allra landa OECD.
Þá gætu stjórnvöld látið sér detta í hug að auka ávinning þjóðarinnar af sjávarauðlindinni.
Beittasta tól stjórnvalda er þó líklega að haga ríkisrekstrinum þannig að hann ýti ekki undir verðbólgu. Langvarandi hallarekstur er þannig til þess fallinn að eyða öllum öðrum tilraunum til að halda verðbólgunni í skefjum.
Væri aginn og aðhaldið raunverulegt hjá hinu opinbera, væri skuldsetning ekki aukin ár eftir ár, vaxtakostnaður ekki þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins og mun líklegra að stýrivextirnir myndu virka sem skyldi. Það er ekki að ástæðulausu sem seðlabankastjóri sagði á fundi í síðustu viku að stofnun hans væri eini aðilinn sem sýndi nokkurt aðhald. Sennilega mun samsetning ríkisstjórnarinnar þó koma í veg fyrir að þau gangi í lið með seðlabankastjóra þar.
Stærsta kjarabót launþega á Íslandi væri svo án efa að skipta sveiflukenndum gjaldmiðlinum okkar út fyrir evru. Það myndi annars vegar knýja ríkisstjórnina til ábyrgðar því hún gæti ekki lengur falið sig bak við fallandi krónu. Hins vegar hefði það í för með sér vaxtalækkanir fyrir allan almenning og fyrirtæki. Það væri raunveruleg miðlunartillaga inn í kjaraviðræðurnar.
Greinin birtist fyrst 2. mars í Fréttablaðinu