03 maí Farin á veiðar
Í mínu fyrra lífi sem blaðamaður hér á þessu ágæta dagblaði fór ég í góða ferð til Grænlands og tók viðtöl við fólk um líf þess og störf. Eitt viðtalið fór fyrir lítið því þegar ég mætti fyrir utan litlu búðina þar sem ég hafði mælt mér mót við eigandann hékk miði á hurðinni: Farin á veiðar.
Þessi miði kom upp í hugann um helgina í tengslum við þetta sérkennilega viðbragðsleysi ríkisstjórnarinnar sem er að gera heimilum landsins mikinn óleik. Viðbragðsleysi við verðbólgu- og vaxtaáþjáninni sem þyngir greiðslubyrði lána fram úr hófi, étur upp sparifé og gerir fólki erfitt um vik með að eignast og standa undir kostnaði við húsnæði auk þess sem síhækkandi matarverðið hefur gert matarinnkaup að kvíðavaldandi uppákomum hjá mörgum fjölskyldum.
En aftur að miðanum góða. Farin á veiðar. Þrátt fyrir plön um annað var farið í veiði þegar vel stóð á. Sambúðin við óblíð náttúruöflin í gegnum árin hefur kennt fólki að grípa gæsina þegar færi gefst þrátt fyrir að annað hafi staðið til þann daginn.
Hvernig tengist þetta svo ástandi efnahagsmála á Íslandi? Rétt eins og vinir okkar á Grænlandi búum við hér við óblíð náttúruöfl sem hafa mótað samfélag okkar á margvíslegan máta. En við eigum líka sögu um önnur öfl sem hafa mikil áhrif á okkur.
Verðbólguskot og fáránlega háir vextir eru auðvitað ekki náttúrulögmál heldur afleiðing pólitískra ákvarðana stjórnvalda. En svo þrautseig er þessi tvenna; verðbólga og ofurvextir í íslensku samfélagi, að við erum farin að umgangast hana eins og óumflýjanlegt lögmál. Við segjum ítarlegar fréttir af veðri, verðbólgu og vöxtum enda er þetta þrenning sem að miklu leyti stýrir
ákvörðunum okkar.
Íslensk heimili geta planað fram í tímann en plan B þarf alltaf að vera fyrir hendi. Ekki bara vegna veðurs, heldur vegna þess að kannski dugar peningurinn ekki lengur fyrir því sem planað var. Hann verður farinn í aukin vaxtagjöld eða brennur upp á verðbólgubálinu í formi í hækkandi verðs á mat og öðrum nauðsynjum.
Þetta er sama sagan aftur og aftur. Við getum gert vönduð plön en á meðan íslensk þjóð býr við íslensku örkrónuna þá verður þetta okkar sveiflukenndi veruleiki. Og þegar við búum til viðbótar
við ríkisstjórn sem ekki getur haldið aftur af eigin eyðslu, ekki einu sinni í viðleitni til að hemja verðbólgu og hækkandi vexti heldur varpar vandanum yfir á almenning, þá er ekki von á góðu.
Þetta þarf ekki að vera svona.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3 maí