22 maí Ótti gömlu flokkanna
Ég er reglulega spurð af erlendum kollegum hvort umræðan um Evrópusambandsaðild hafi ekki tekið flugið síðasta árið í ljósi aukinnar áherslu á öryggis- og varnarmál. Og þau sem vita að íslenska vaxtabáknið er raunverulegt en ekki einhver kolsvört kómedía trúa því ekki að við séum ekki á fleygiferð inn í ESB. Svar mitt er, jú umræðan er hávær meðal almennings, þögnin jafn hávær meðal stjórnmálamanna.
Það er ekki rétti tíminn núna að mati þeirra sem vilja óbreytt ástand. Svo margt annað að gera og græja í pólitíkinni og svo hefur fólk líka engan áhuga. Þar er vísað í kosningar og skoðanakannanir sem sýna vissulega að meirihluti atkvæða liggur hjá flokkum sem vilja ekki að þjóðin sé spurð álits. En þjóðin hefur nú samt verið spurð. Í nýlegri skoðanakönnun var vel rúmur helmingur aðspurðra hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Það var meirihluti hjá stuðningsfólki fjögurra stjórnmálaflokka fyrir því að ganga í ESB og meirihluti hjá öllum flokkum nema einum fyrir því að leyfa þjóðinni að kjósa um framhald viðræðnanna.
Af hverju ætli svo stór hluti þjóðarinnar láti sér þá lynda að málið sé ekki sett á oddinn í kosningum? Kannski trúir það flokknum sem er á móti þjóðaratkvæðagreiðslu og fullyrðir að nú sé Ísland orðið lágvaxtaland til allrar framtíðar. Kannski kaupir það sönginn um að ekki sé hægt að bæta heilbrigðisþjónustuna á sama tíma og þjóðin kýs um aðildarviðræður. Kannski sé best að horfa á skammtímalausnirnar þar sem flestir flokkar keppast um að toppa sjálfa sig og aðra og vona að í þetta sinn verði þær lausnir langlífari en við höfum vanist hér. Vona til dæmis og trúa að vaxta- og verðbólguhringekjan stoppi hér og nú þó ekkert sé gert til að ráðast að rótum vandans, aðeins kynntar til sögunnar gamlar tillögur um aukin ríkisútgjöld og hærri skatta.
Ég þekki engan sem heldur því fram að ESB-aðild sé markmið í sjálfu sér. Né að í henni felist einhver töfralausn fyrir Íslendinga. Nema reyndar stjórnmálamenn, sem vita auðvitað betur, en hentar einhverra hluta vegna að búa til slíka strámenn til að afvegaleiða umræðuna. Staðreyndin er sú að fólk hefur alls konar ástæður enda er ávinningurinn margvíslegur, bæði til skemmri og lengri tíma, og markmið ESB um frið og efnahagslegt öryggi jafn mikilvæg Íslandi og öðrum Evrópuþjóðum.
Hin áleitna spurning er þessi; af hverju eru gömlu flokkarnir svona hræddir við að spyrja þjóðina?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí