09 jún Bann við bælingarmeðferðum samþykkt
Rétt í þessu samþykkti Alþingi frumvarp Viðreisnar um bann við bælingarmeðferðum. Með samþykkt frumvarpsins er það gert refsivert að láta einstakling undirgangast svokallaða bælingarmeðferð með nauðung, blekkingum eða hótunum, að láta barn undirgangast slíka meðferð hér á landi eða erlendis sem og að framkvæma bælingarmeðferðir, hvetja til eða þiggja fé vegna þeirra.
Hvað er bælingarmeðferð?
Bælingarmeðferð (e. conversion therapy) kallast það þegar fólk er látið sæta meðferð til að bæla niður og breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu þess. Slíkar meðferðir hafa víða verið framkvæmdar, bæði hérlendis sem erlendis, byggt á þeirri trú að unnt sé að „lækna“ náttúrulega kynhneigð eða kynvitund fólks. Í slíkum meðferðum er gjarnan samtali beitt til þess að tengja upplifun þolandans á kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu sinni við sársauka og skömm. Í grófari tilvikum hefur þolandinn einnig verið látinn undirgangast inngripsmeiri líkamlegar meðferðir. Bælingarmeðferðir eru ekki studdar af vísindum, þær eru siðferðilega rangar og geta haft verulega neikvæð óafturkræf áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks sem látið er undirgangast þær. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir neikvæðum áhrifum bælingarmeðferða.
Burtu með fordóma
Fordómar gegn hinsegin fólki eru oft duldir og þetta er ein grófasta birtingarmynd þeirra. Skaðinn af bælingarmeðferð nær langt út fyrir gagnsleysi þeirra og tímann og peninginn sem tapast við tilraunir til að breyta kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu fólks. Lífsánægja hinsegin fólks, og sérstaklega hinsegin ungmenna, er mun minni en annarra. Samkynhneigð ungmenni eru til dæmis 25 sinnum líklegri til að svipta sig lífi eða að gera tilraun til þess en jafnaldrar þeirra. Til viðbótar eru ungmenni sem hafa verið látin undirgangast bælingarmeðferð meira en tvöfalt líklegri til þess að reyna sjálfsvíg. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á meira en tvöfalt hærri tíðni þunglyndis meðal þeirra hinsegin ungmenna sem hafa verið látin þola bælingarmeðferð en annarra hinsegin ungmenna. Á þessum grundvelli verður bælingarmeðferð á börnum að teljast misneyting og ofbeldi sem stefnir lífi þeirra og heilsu í hættu.
Hanna Katrín Friðriksson fyrsti flutningsmaður málsins sagði „Við samþykkt þessa máls staðfestum við að það megi ekki þvinga fólk, skaða og meiða til fá það til að passa inn í heimsmynd sem hentar einhverjum öðrum en því sjálfu. Þvinga, skaða og meiða fólk til að fá það til að vera öðruvísi en það er, til að vera eins og eitthvað annað fólk vill. Eins og einhver fámennur og frekur hópur heimtar. Af því að sá hópur hræðist, einhverra hluta vegna, heim þar sem allir eru frjálsir til að vera eins og þeir eru, hræðist heim þar sem slík mannréttindi eru fyrir alla.“