01 jún Búin að hjálpa Úkraínu nóg?
Fljótlega eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 kom beiðni frá Úkraínu um niðurfellingu tolla á úkraínskum vörum en úkraínsk stjórnvöld voru þar að leita leiða til að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök.
Ísland tók vel í þessa beiðni og fyrir ári samþykkti Alþingi lög um tímabundna undanþágu á tollum á vörum frá Úkraínu. Sú undanþága rann út í gær en ekki liggur fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda hvert framhaldið verður. Evrópusambandið og Bretar, sem líkt og Ísland svöruðu kalli Úkraínu fyrir ári, hafa framlengt undanþáguna.
Bændasamtök Íslands hafa lýst andstöðu við að þessi stuðningur við Úkraínu verði framlengdur. Frá því að undanþágan tók gildi fyrir ári hefur innflutningur frá Úkraínu aukist úr 25 milljónum króna í 94 milljónir. Aukningin felst fyrst og fremst í innflutningi á kjúklingum sem nemur örlitlum hluta af heildarmarkaði.
Fyrir ári var efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis einhuga um afgreiðslu undanþágunnar og vitnaði til orða forseta Úkraínu í nefndaráliti sínu „Þess vegna er mikilvægt fyrir frjálsar þjóðir heims að Úkraína verði ekki skilin eftir á berangri og berjist þar ein og afskipt við Rússland. Það er mikilvægt að allar þjóðir leggi hönd á plóg.“
Fyrir nokkrum vikum átti ég samtal við úkraínskan þingmann sem lýsti mikilvægi þess að hjól atvinnulífsins snerust áfram í Úkraínu þrátt fyrir stríðið: „Þannig náum við að greiða hermönnum okkar og heilbrigðisstarfsfólki laun. Án þess er baráttan töpuð.“ Baráttan sem úkraínski þingmaðurinn vísaði til er blóðugt varnarstríð Úkraínu við hættulegustu afturhaldsöfl sem heimsálfa okkar hefur séð um töluvert skeið.
Framlenging umræddrar tollaundanþágu er örlítið lóð á þessa vogarskál og mikilvægt að sú aðstoð verði ekki stöðvuð vegna skammtímahagsmuna þröngra hópa í íslensku atvinnulífi.
Í vikunni kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar að hún væri hlynnt því að Ísland framlengdi undanþáguna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur hins vegar ekki enn vísað slíku máli til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Sú dapurlega staðreynd leiddi til þess að ég kallaði í gær eftir sjónarmiðum Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns nefndarinnar varðandi stöðuna. Af viðbrögðum Guðrúnar í þingsal var ekki hægt að ráða að einhugur væri um það meðal ríkisstjórnarflokkanna að við legðum áfram okkar lóð á vogarskálarnar.
Það er eindregin von mín að þröngir sérhagsmunir ráði ekki för stjórnvalda hér. Það er ekki við Úkraínu að sakast þótt stríðinu sé ekki lokið og þau þurfi áframhaldandi aðstoð. Ég hvet stjórnvöld til að klára málið sem fyrst þannig að sómi sé að.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júní