29 jún Sigur fyrir þolendur heimilisofbeldis
Á laugardaginn kemur taka loksins gildi lög sem auðvelda lögskilnað fyrir þolendur ofbeldis í nánu sambandi. Hugmyndasmiður laganna er Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, sem lagði frumvarpið fyrst fram haustið 2019 í kjölfar útvarpsþátta sem báru heitið Kverkatak, þar sem rýnt var í heimilisofbeldi, eðli þess, áhrif og afleiðingar. Ég endurflutti frumvarpið síðan fyrir rúmu ári.
Lög og reglur um hjónabönd verða að vera skýr. Þau eiga að endurspegla tíðarandann og mega ekki fela í sér hindrun þegar fólk sem verður fyrir ofbeldi af hálfu maka síns leitar skilnaðar.
Birtingarmynd heimilisofbeldis er flókin og margþætt. Það er oft líkamlegt eða kynferðislegt en allt of mörg dæmi eru líka um andlegt, fjárhagslegt eða stafrænt ofbeldi sem getur farið mjög leynt. Lögin hafa til þessa veitt heimild til skilnaðar hjá sýslumanni í tilviki líkamsárásar eða kynferðisbrots gagnvart maka eða barni á heimilinu en aðeins ef gerandinn samþykkir að óska skilnaðar á grundvelli brota sinna. Gilti það jafnvel þótt gerandinn hefði hlotið dóm fyrir brot sitt. Þannig hefur fólk sem beitir maka sinn ofbeldi haft í hendi sér tæki til að draga skilnaðarferli á langinn og með því getað viðhaldið ofbeldissambandinu lengur.
Það hefur lengi verið augljóst að það hefur þurft að víkka út skilgreininguna á ofbeldi og auka rétt þolanda til að leita skilnaðar. Í nýju lögunum er heimild til skilnaðar hjá sýslumanni, án undangengins skilnaðar að borði og sæng, ef gerandi hefur hlotið dóm fyrir brot sitt. Í tilvikum þar sem dómur hefur ekki fallið er þolendum nú tryggð lögbundin flýtimeðferð í skilnaðarmáli og sönnunarstaða þeirra er bætt til muna, þar sem útkall lögreglu vegna heimilisofbeldis eða heildarmat á aðstæðum og upplýsingum teljast fullnægjandi til að veita lögskilnað. Þetta getur stytt skilnaðarferlið til muna og tryggir þolanda bætta réttarstöðu til að losna úr hjúskap. Nýju lögin tryggja að auki að þolendur þurfa ekki lengur að fara í gegnum skilnað að borði og sæng eða sáttaumleitanaferli heldur aðeins hafa samráð um forsjá barna.
Þegar frumvarpið var samþykkt síðasta vor setti meirihluti þingsins skilyrði um að gildistöku laganna yrði seinkað um eitt ár. Var það til þess að sýslumaður og aðrir sem eru ábyrgir fyrir framkvæmd laganna fengju tækifæri til að aðlaga málsmeðferð sína breyttri umgjörð. Það ár er nú liðið og lögin taka gildi 1. júlí 2023. Breytingin felur í sér langþráðan áfangasigur í baráttunni fyrir aukinni réttarvernd fólks sem er fast í ofbeldishjúskap. Því ber að fagna um leið og ljóst er að því miður er baráttunni hvergi nærri lokið.