19 jún Það er ekkert gefið í þessum heimi
Bríet Bjarnhéðinsdóttir lék gríðarlega stórt hlutverk í því að koma á þessum mikilvægu réttarbótum fyrir konur og efla þannig lýðræðissamfélagið fyrir okkur öll. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928, en markmið þess var að vinna að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi og embættisgengi, og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.
Höldum baráttunni áfram
Margt hefur breyst og áunnist á þeim 108 árum sem liðin eru. Við getum jafnvel sagt að lagalegt jafnrétti karla og kvenna, sem Bríet barðist fyrir, sé að mörgu leyti komið. En þó er ljóst að staða kynjanna í samfélaginu er enn ójöfn og raunverulegt jafnrétti er ekki í höfn. Við eigum einnig enn eftir að fá allt samfélagið með okkur í lið þegar kemur að fjölbreytileika kynjanna og að víkja frá kynjatvíhyggjunni.
Lagaleg réttindi fara ekki alltaf saman við samfélagsstöðu þeirra hópa sem um ræðir. Þau eru mikilvægt skref, en alls ekki eina skrefið. Og allri jafnréttisbaráttu stafar stöðug ógn af bakslagi. Þetta sjáum við vestanhafs og austan, þegar horft er til réttinda kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þetta sjáum við á Íslandi í dag þegar horft er til hinsegin samfélagsins, þá sérstaklega trans fólks og þeirra fordóma sem stöðugt dynja á því. Þetta sjáum við á samfélagsmiðlum með hatursorðræðu í garð innflytjenda, litaðs fólks og kvenna.
Með hverri kynslóð koma nýjar áskoranir í jafnréttismálum, nýjar bylgjur fordóma og nýtt bakslag sem þarf að bregðast við og vinna bug á. Það má með sanni segja að starfi Bríetar verði í raun aldrei lokið og það sé hlutskipti nýrrar kynslóðar að taka við kyndlinum.
Konur tilheyra öllum hópum samfélagsins, þær eru fatlaðar, þær eru trans, þær eru íþróttahetjur, þær eru innflytjendur, þær eru forstjórar, þær eru pankynhneigðar, þær eru fátækar, þær eru gamlar og þær eru ungar.
Að berjast fyrir réttindum kvenna þýðir marglaga og fjölþætt barátta, sem þarf að há á mörgum vígstöðum og kallar á samstöðu ólíkra hópa. Í dag sækjum við okkur innblástur og kraft frá Bríet og hennar sögu og nýtum okkur hana sem veganesti í áframhaldandi jafnréttisbaráttu. Höldum áfram að berjast og byggja réttlátara borgarsamfélag fyrir okkur öll.