27 júl Framtíð frekar en fortíð
Á nýlegum landsfundi norska Hægri flokksins var samþykkt með miklum meirihluta að rétt væri að stefna að aðild Noregs að Evrópusambandinu án frekari tafa. Með hagsmuni Noregs í huga bæri flokknum að leiða kröftuga og upplýsta umræðu um fulla aðild Noregs að ESB fyrir kosningar 2025. Rökin voru einfaldlega þau að mikilvægi evrópskrar samstöðu í þeirri breyttu heimsmynd sem við stöndum nú frammi fyrir þýddi að þau lönd sem standa utan ESB eiga á hættu að einangrast. Slíkt þjónaði hagsmunum Norðmanna illa hvort sem litið er til efnahagslegra hagsmuna eða sjálfstæðis þjóðarinnar.
Í framhaldinu hafa bæði norski Umhverfisflokkurinn og síðar Verkamannaflokkurinn norski ályktað að hagsmunum Noregs sé best borgið með því að hefja sem fyrst aðildarviðræður við ESB. Báðir flokkarnir slógu sama tón og Hægri flokkurinn og nefndu að í ljósi þeirra hröðu breytinga sem eiga sér stað í Evrópu þar sem mikilvægi samstöðu og samvinnu fer vaxandi væri Evrópusambandið enn mikilvægara en áður. Utanaðkomandi ógnir, umhverfis- og loftslagsmál og tækniþróun séu áskoranir sem lönd Evrópu takist betur á við sameinuð.
Norskir stjórnmálamenn vilja með öðrum orðum skipta út fortíðargleraugunum fyrir önnur sem henta þjóðinni betur í nútíð og náinni framtíð. Það eru enda tæp þrjátíu ár frá því að Norðmenn höfnuðu Evrópusambandsaðild naumlega og margt hefur breyst bæði innan ESB og utan. Svein Roald Hansen, fyrrverandi þingmaður norska verkamannaflokksins og fyrrverandi kollegi minn í þingmannanefnd EFTA, segir á facebook-síðu sinni í tilefni þessarar umræðu í Noregi að nú sé góður grundvöllur fyrir því að þora að uppfæra ESB-umræðuna í ljósi nýrrar þekkingar og nýrrar stöðu m.a. í norsku efnahagslífi og atvinnulífi.
Við þurfum að taka þessa umræðu hér. Umræðu sem byggist á staðreyndum og breyttri heimsmynd. Full aðild okkar að Evrópusambandinu er ekki sjálfstætt markmið heldur er hún leið til að ná hér fram meiri stöðugleika og traustari velferð fyrir íslenska þjóð. Auðvitað getur það gerst að því verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga til aðildarviðræðna. Og þótt það yrði samþykkt gæti samt gerst að meirihluti þjóðar segði nei þegar samningurinn kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri vissulega miður en afurðin yrði þó vonandi upplýst og gagnleg umræða um kosti og galla Evrópusambandsaðildar fyrir íslenska þjóð og skýr sýn á framtíðina utan ESB. Það er nefnilega kominn tími til að koma fortíðargleraugunum í langvarandi geymslu. Hin aðkallandi spurning er: Þorir ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þá naflaskoðun sem þessu ferli fylgir?