10 ágú Hversu mörg aflátsbréf þarf til?
Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar og stjórnmálanna allra er að takast á við verðbólguna. Verðbólgu sem hefur varað lengur en hjá helstu vinaþjóðum okkar, með margföldum vaxtakostnaði miðað við annars staðar. Hvort sem við stöndum til hægri eða vinstri þurfum við að sameinast um það að kveða þennan þráláta draug niður, enn á ný. Einungis þá getum við aftur séð vextina, sem eru að drekkja heimilum og fyrirtækjum, lækka og hag okkar batna. En draugabanarnir hafa ekki enn verið kallaðir til. Enda þyrfti þá að taka erfiðar ákvarðanir og horfast í augu við aga í ríkisfjármálum og vinnumarkaði. Og taka erfiðu samtölin við ríkisstjórnarborðið.
Ríkisstjórn falskra vona
Fólk trúði stjórnmálamönnum sem héldu því statt og stöðugt fram fyrir síðustu kosningar að Ísland væri skyndilega orðið að lágvaxtalandi og skuldsetti sig í samræmi við það. En það er lítill mannsbragur á því að vekja falskar vonir og væntingar. Við vitum að með íslensku krónunni verður Ísland aldrei lágvaxtaland nema í örskamman tíma í senn.
Lykillinn að því að lækka vexti og fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja er að takast á við verðbólguna. Þá dugar ekki að afvegaleiða umræðuna með dægurflugum. Hér þarf skýran fókus og vilja til að skora verðbólgufjandann á hólm. Í slíkum aðstæðum er lausagangurinn á stjórnarheimilinu ekki beint hjálplegur.
Einföldum kerfið
Allt þetta kjörtímabil hefur Viðreisn varað við verðbólgunni. Við höfum lagt til aðhald í ríkisrekstri, m.a. með því að fækka aftur ráðuneytum og hætta að nota stofnun dýrra ríkisstofnana sem skiptimynt í pólitískum hrossakaupum. Á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hefur báknið þanist út og virðist ekkert lát vera á. Árleg tillaga Viðreisnar um að fara að leiðsögn OECD til að einfalda kerfin okkar og sameina stofnanir virðist ekki njóta vinsælda meðal stjórnarflokkanna. Jafnvel þótt þar sé flokkur sem eitt sinn kenndi sig við ábyrgð í ríkisfjármálum.
Viðreisn vildi greiða niður skuldir
Stærsti liður í fjárlagatillögum Viðreisnar síðasta árs var 20 milljarða niðurgreiðsla á skuldum ríkisins, til að lækka einar hæstu vaxtagreiðslur evrópsks ríkis. Við vildum draga úr fjármagni í umferð og vinna á verðbólgunni. Strax. Við vorum heldur ekki hrifin af því að auka lántökuheimild ríkisins um tugi milljarða. Því við viljum ekki að lífskjörin verði tekin af láni. En sú tillaga var felld af ríkisstjórnarflokkunum.
Ég hef síðan alltaf dálítið gaman af því þegar vinir mínir, eitt sinn til hægri, fara á innsogið og segja að við séum jú víst með tillögur til útgjalda. Sömu einstaklingar og bera ábyrgð á taumlausri þenslu ríkisbáknsins á síðustu árum. Og standa, án þess að blikna, fyrir mestu skattlagningunni á íslenskan almenning með því að viðhalda íslensku krónunni.
En það er rétt. Að sjálfsögðu höfum við okkar skoðanir á því hvernig rétt er að ráðstafa nauðsynlegum ríkisútgjöldum til að koma til móts við þann bráðavanda sem nú er og draga úr samfélagslegum kostnaði síðar meir. Það er ekki feimnismál svo lengi sem þau styðja við velferð, menntun, innviði. Og að við eigum fyrir þeim. Það er lykilatriði. Í því felst almenn samfélagspólitík. En ríkisstjórnarflokkarnir hafa kosið að skila ríkissjóði með halla til margra ára. Verkefnið verður næstu ríkisstjórna. Það er ekki mikil reisn yfir því né hefur fram til þessa verið flokkað sem skynsöm hægri pólitík.
Skammtímalausnir á matseðlinum
Og við segjum líka hiklaust að það er útilokað að ræða lægri vaxtakostnað ríkis, heimila og fyrirtækja til lengri tíma nema eiga gagngert samtal um íslensku krónuna og afleiðingu hennar fyrir almenning. Óbreytt gjaldmiðlaumhverfi er pólitísk ákvörðun um að íslensk heimili greiði íbúðir sínar allt að fjórum sinnum miðað við heimili á Norðurlöndum og íslensk fyrirtæki greiði margfalda vexti miðað við samkeppnisaðila sína á erlendri grundu. Með tilheyrandi röskun á samkeppnishæfni þjóðarinnar. Nokkur vel valin stórfyrirtæki hljóta náð og gera upp í erlendri mynt. Almenningur er skilinn eftir til að standa undir þungum krónuskattinum. Litlar tilviljanir hér á ferð.
Það má hins vegar óska stjórnarflokkunum til hamingju með að þeir eru ekki lengur einir um að stinga þessu risahagsmunamáli undir stól. Þeir hafa nú fengið harða samkeppni frá öðrum vinstri flokkum um að stóla á skammtímalausnir og frasagjarna pólitík. Sem gerir lítið annað en að viðhalda blindninni á íslenska krónuundrið og rúllettunni sem fylgir.
Sjálfstæðisflokkurinn setti met í útgjöldum
Við héldum í einlægni að vinir okkar í Sjálfstæðisflokknum myndu taka vel í aðhaldshugmyndir okkar um að lækka skuldir ríkisins, einfalda kerfið og sameina stofnanir. Þess í stað kynnti ríkisstjórnin breytingar á fjárlögum sem slógu met í útgjaldaþenslu á verðbólgutímum, breytingar sem vinstri flokkar hefðu verið stoltir af. Á milli umræðna jukust útgjöldin um 53 milljarða. Á milli ára jukust útgjöldin um 120 milljarða. Í stað þess að sýna ábyrga hagstjórn og styðja Seðlabankann í baráttunni gegn verðbólgunni, stóð fjármálaráðherra og dreifði kostnaðarsömum loforðum eins og hann væri staddur í sjónvarpsþætti hjá Oprah Winfrey.
Ekki rugga ríkisstjórnarbátnum
Fjárlögin í ár bera ekki vott um nauðsynlegt aðhald á verðbólgutímum. Ekki heldur önnur stefnumál ríkisstjórnarinnar. Ný verkefni voru kynnt án þess að skoða hvort hægt væri að skera annars staðar niður á móti. Í stað þess að forgangsraða var bara bætt í útgjöldin. Á mesta hagvaxtarskeiði síðari tíma skilaði ríkisstjórnin ekki bara auðu, heldur kynnti undir verðbólgubálinu.
Forgangsröðun ríkistjórnarflokkanna var sú að allir ráðherrar fengju sitt, enda ákveðin jafnvægislist að halda þessari ríkisstjórn saman. Það sorglega er, að við stjórnarborðið er engin viðspyrna. Engin. Þá skiptir engu hversu mörg aflátsbréf stjórnarþingmenn skrifa.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2023