25 ágú Norrænt samstarf á tímamótum
Í byrjun vikunnar tók ég þátt í tímamótafundi á vegum Norðurlandaráðs sem varaformaður starfshóps sem á að meta þörfina á að endurskoða Helsinkisamninginn og eftir aðstæðum koma með tillögur til breytinga. Samningurinn, sem er undirstaða umfangsmikils norræns samstarfs, var undirritaður 1962 og síðast endurskoðaður fyrir tæpum 30 árum. Síðan hefur þróun mála orðið með þeim hætti að eðlilegt er að skoða hvort þetta mikilvæga samstarf megi efla enn frekar til að styrkja stöðu Norðurlanda í hnattrænu samhengi.
Ég er formaður Miðjuflokkahópsins í norrænu samstarfi en þar hefur lengi verið talað fyrir endurskoðun og uppfærslu. Ekki síst hefur mikilvægi aukins samstarfs í öryggis- og varnarmálum aukist eftir síðustu vendingar í heimsmálunum. Við Íslendingar erum ekki undanskilin þar eins og merkja má á aukinni pólitískri umræðu um þessi mál hér á landi.
Á næsta ári tekur Ísland við formennsku í Norðurlandaráði. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili af sér tillögum á þingi ráðsins sem haldið verður í Reykjavík haustið 2024. Hver sem niðurstaðan verður af vinnunni, sem Norðurlandaráð mun taka afstöðu til sem og ríkisstjórnir og þjóðþing Norðurlandanna, má vænta þess að ferlið leiði til umræðu og ákvarðana um mikilvæg málefni sem varða norrænt samstarf. Í ljósi aðstæðna má líka búast við því að vinnan hafi áhrif á formennskutíð Íslands og gefi okkur gott tækifæri til að setja á dagskrá mál sem við teljum mikilvæg.
Eitt slíkt mál lýtur að norðurslóðum en vaxandi stórveldapólitík getur leitt til mikillar pólunar þar sem vinnur gegn áherslum okkar og annarra Norðurlandaþjóða á að norðurslóðir séu lágspennusvæði. Við viljum leita leiða til að efla samstarf Norðurlandanna enn frekar með það að leiðarljósi að stuðla að friði og öryggi til framtíðar. Loftslagsmálin eru annar málaflokkur sem endurskoðun á Helsinkisamningnum mun taka til þar sem áherslum okkar og markmiðum verður komið á framfæri.
Norðurlönd standa framarlega á heimsvísu þegar kemur að lýðræði og mannréttindum og eru mörgum löndum fyrirmynd. Það er full ástæða fyrir hin norrænu ríki að taka höndum saman við að verja þessi réttindi og þau norrænu gildi um frelsi og jafnrétti sem liggja þeim til grundvallar. Endurskoðun Helsinkisamningsins gefur gott tækifæri til þess.
Fyrir Ísland er svo mikilvægt að tryggja að íslenskt tungumál sé jafngilt öðrum norrænum tungumálum. Aðeins þannig getur hin rómaða norræna samvinna verið á jafningjagrundvelli. Margt fleira er svo undir í þessari endurskoðun á því norræna samstarfi sem Helsinkisamningurinn rammar inn. Markmiðið er sem fyrr öflug Norðurlönd í öflugri Evrópu.