23 sep Faraldurinn í fjárlögum
Þegar ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir áframhaldandi hallarekstur þá er hún gjörn á að benda á heimsfaraldurinn sem skýringu. Vandamálið er hins vegar að það var kominn faraldur í fjárlögin löngu fyrir heimsfaraldur og að það verður faraldur í fjárlögunum löngu eftir heimsfaraldur.
Fjárfesting stjórnvalda í heilbrigðisþjónustu er á sama tími minni en á öðrum Norðurlöndum. Fátt einkennir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu á Íslandi meira en biðin eftir þjónustu. Þetta er reyndin þrátt fyrir að hér á landi sé starfandi frábært heilbrigðisstarfsfólk, allt frá læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til félagsráðgjafa og iðjuþjálfa. Fjárfestingin er lítil en skattheimta óvíða hærri en á Íslandi. Hvað er það þá sem veldur?
Ævintýralegur vaxtakostnaður
Vaxtagjöld ríkisins á næsta ári verða 111 milljarðar skv. fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra. Vaxtakostnaður er því fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins. Þess vegna gengur ekki upp í umræðu um fjárlög og stöðu ríkisins að ræða ekki kostnað ríkisins af skuldum. Þessi ævintýralegi vaxtakostnaður hefur áhrif á getu stjórnvalda til að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu og innviðum sem og að veita sanngjörnum tilfærslum til heimila í vanda.
Árið 2021 námu skatttekjur hins opinbera að viðbættu framlagi í sjóðasöfnun lífeyrissjóða næstum 45% af landsframleiðslu samkvæmt OECD. Aðeins Danmörk var hærri en Ísland á þessum mælikvarða. Við erum að nálgast heimsmeistaratitil að þessu leyti. Við þurfum að taka sjóðasöfnun lífeyrissjóða með í reikningsdæmið þegar umfang hins opinbera er skoðað í alþjóðlegu samhengi vegna þess að mörg lönd fjármagna lífeyriskerfin sín með gegnumstreymi.
Háskattalandið Ísland
Það er merkilega lítil umræða um hversu háir skattar eru á Íslandi og hvernig það má vera að þessir háu skattar skila engu að síður heilbrigðisþjónustu sem einkennist fyrst og fremst af biðlistum. Svo hár skattur ætti að skila heilbrigðum opinberum rekstri og sterkri velferð sem stenst samanburð við kerfi hinna Norðurlandanna. Svo er einfaldlega ekki. Ábyrg hagstjórn snýst um að sýna hófsemi í skattlagningu og að fara vel með fjármuni almennings. Skynsöm velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingum í þágu almannahagsmuna.
Fjárlög næsta árs hafa gengið í gegnum fyrstu umræðu á þingi og áfram er halli á ríkisstjórnarheimilinu. Heimili og fyrirtæki glíma við mikla verðbólgu og enn hærri vexti en á sama tíma fer orka ríkisstjórnarinnar í innbyrðis erjur. Sundruð ríkisstjórnin sýnir almenningi aftur og aftur að hún starfar ekki eftir skýrri stefnu og er fyrir vikið stefnulaus í lykilmálaflokkum. Sundruð bæði hvað varðar hagstjórn og velferð. Hún er sundruð í löggæslu-, útlendinga-, húsnæðis- og orkumálum og reyndar í flestum málum sem snerta venjulegt fólk í landinu. Þetta ástand hefur afleiðingar því að á meðan bíða verkefnin einfaldlega næstu ríkisstjórnar.
Millistéttin gleymist
Seðlabankinn hefur ítrekað óskað eftir því að ríkisstjórnin beiti sér gegn verðbólgu og vinni með bankanum. Seðlabankinn hefur hins vegar verið skilinn einn eftir með verkefnið. Fyrir vikið hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti 14 sinnum í röð og vextir nálgast nú rússneskt vaxtastig. Tugþúsundir finna fyrir hærri afborgunum af húsnæðislánum og enn aðrir sjá hvernig höfuðstóll húsnæðisláns hækkar þrátt fyrir að borgað sé af láni mánaðarlega. Hvert sem komið er heyrist að fólk er með hugann við verðbólgu og heimilisbókhaldið.
Þessar vaxtahækkanir bitna harðast á ungu fólki og barnafjölskyldum. Þetta er millistéttin. Aldrei hafa fleiri keypt sér sína fyrstu íbúð en á árunum 2020 og 2021. Fyrstu kaupendur og millistéttin eiga hins vegar ekkert skjól hjá ríkisstjórn í landi þar sem meðalvextir á óverðtryggðum húsnæðislánum eru yfir 10%, margfalt hærri en innan evrusvæðisins. Ríkisstjórnin hefur ekki viljað beita húsnæðis-, vaxta- og barnabótum til að verja millistéttina og skilur hana eftir með höggið af fullum þunga.
Síðan er það fólkið sem komst ekki inn á fasteignamarkaðinn fyrir hækkanir. Núna getur varla nokkur keypt sér fyrstu íbúð nema að eiga bakland sem getur veitt fjárhagslegan stuðning. Fasteignaverð hefur aldrei verið hærra í hlutfalli við laun. Á síðasta áratug hefur fasteignaverð á Íslandi hækkað mest í samanburði 41 lands OECD; um 100% að raunvirði. Þessi hækkun er um fjórðungur á hinum Norðurlöndunum.
Stjórnvöld verða að sýna forystu í ástandi sem þessu og vera skýr um markmið aðgerða og forgangsröðun. Það gerði Viðreisn við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023. Þá lögðum við fram tillögur til að verja millistéttina í gegnum vaxta- og húsnæðisbótakerfið og með greiðslum barnabóta. Það munum við aftur gera í ár. Við lögðum ein fram hagræðingartillögur sem beindust að því að fara betur með fjármuni í stjórnsýslunni, að ráðuneytum yrði aftur fækkað og skuldir ríkisins yrðu greiddar niður um 20 milljarða á árinu. Við lögðum til tekjuöflun með hækkun veiðigjalda og kolefnisgjalda. Allar tillögur Viðreisnar spegluðu þá hugmyndafræði að sýna ábyrgð í efnahagsmálum og trúverðugar tillögur í velferðarmálum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu