22 sep Hvert fara skattarnir?
Það eru allir að tala um heilbrigðismál. Flest þekkjum við sem betur fer góðar sögur af því hvernig heilbrigðiskerfið hefur tekið utan um fólk, en hinar sögurnar eru líka til. Af slæmri stöðu í bráðaþjónustu Landspítalans og vaxandi biðlistum eftir geðheilbrigðisþjónustu, þjónustu sérfræðilækna, sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga. Staðan þegar kemur að þjónustu við elstu íbúa þessa lands er skammarleg.
Það sem brennur nú á fólki til viðbótar er staðan í grunnþjónustunni. Víða innan heilsugæslunnar eru biðlistarnir komnir í harða baráttu við aðra illræmda biðlista innan heilbrigðiskerfisins.
Það er risavaxið verkefni að veita stöðuga og góða heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu og á því eru margar hliðar. Mig langar að setja málið í samhengi við skatta. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2024 eru skatttekjur ríkissjóðs og tryggingagjöld áætluð um 1.200 milljarðar kr. eða um 27% af VLF. Það þýðir að 27% af markaðsvirði allrar vöru og þjónustu sem framleidd er innanlands renna í ríkissjóð í gegnum skatta og gjöld.
Það er samfélagsleg sátt velflestra í íslensku samfélagi um að við leggjum okkar af mörkum í gegnum skattkerfið til að tryggja hér mikilvæga grunnþjónustu, ekki síst heilbrigðisþjónustu. Vaxandi tilfinning fyrir því að skattarnir séu ekki nýttir nægilega vel til að standa undir þessari grunnþjónustu er hins vegar rauður þráður í samtölum við fólk. Og svo hitt, að flest bendir til að millistéttinni verði áfram gert að bera þyngstu byrðarnar.
Þessu til viðbótar kemur svo sturluð vaxtabyrði á heimili og fyrirtæki sem þurfa að sætta sig við krónuhagkerfið. Þessi vaxtabyrði er sannarlega samsvarandi viðbótarskattlagningu, þó ekki sé á hana bætandi. Munurinn er þó sá að þessar álögur leggjast þyngst á nýja íbúðakaupendur, yfirleitt ungt fólk. Þar að auki skila þessar álögur sér ekki beint í ríkissjóð líkt og skattarnir heldur er um að ræða fjárstreymi frá heimilum til fjármagnseigenda. Viðbótarvaxtakostnaður ríkissjóðs vegna íslensku krónunnar er svo sérkapítuli fyrir sig. Sennilega grátlegustu tugmilljarða útgjöld Íslandssögunnar.
Það er brýnna úrbóta þörf víða í heilbrigðiskerfinu. Um það er ekki deilt. Það er líka ljóst að í tiltekin verkefni þarf meira fjármagn til að bæta úr uppsöfnuðum bráðavanda. En það er mikilvægara en nokkru sinni að sýna ábyrgð og aðhald og leggja áherslu á bætta forgangsröðun. Með skýrri sýn, auknu gegnsæi og samstilltu átaki er hægt að nýta skattpeninga heimila og fyrirtækja betur. Það hafa verið og verða áfram skilaboð okkar í Viðreisn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. sept