13 sep Sjúk samkeppni
Eins og sturlaðir vextir, verðbólga og almenn dýrtíð sé ekki nóg til að valda heimilum landsins ómældum erfiðleikum og andvökunóttum þá berast fréttir af ósvífinni atlögu stórfyrirtækja að hagsmunum almennings. Samantekt Samkeppniseftirlitsins yfir helstu atriði samráðs Samskipa og Eimskips er sannarlega enginn yndislestur en beinir athyglinni svo um munar að mikilvægi þess fyrir lífskjör fólks að heilbrigð samkeppni ríki á mörkuðum.
Því var beint til mín í umræðuþætti um samkeppnismál að það hljóti að vera erfitt að vera til hægri í pólitíkinni þegar svona mál koma upp. Svarið er bæði já og nei. Já, því það kemur óorði á hægrið þegar brotin eru ekki tekin nægilega föstum tökum. Nei, af því að það er grundvallaratriði í hægri pólitík að standa vörð um virka samkeppni á mörkuðum og gegn fákeppni og einokun.
Það er fátt sem skapar heimilum og fyrirtækjum landsins jafn mikla velsæld og heilbrigður markaður. Til þess að skapa þær aðstæður þarf að uppfylla ýmis skilyrði. Varðstaða stjórnvalda um hagsmuni almennings með öflugri samkeppnislöggjöf og sterku og skilvirku samkeppniseftirliti er þar lykilatriði.
Samkeppnislögin skapa leikreglur á markaði og koma í veg fyrir að fyrirtæki brjóti á rétti annarra fyrirtækja og heimila. Eina markmið samkeppniseftirlits er að styrkja heilbrigða samkeppni, sem er þegar upp er staðið öflugasta neytendaverndin. Og ekki veitir okkur af!
Samkeppniseftirlitið okkar er ekki yfir gagnrýni hafið. Það er eðlilegt að skoða t.d. einfaldara og skilvirkara regluverk til að ýta undir samkeppni og neytendavernd. Við í Viðreisn höfum lagt áherslu á að auka leiðsagnarhlutverk Samkeppniseftirlitsins af því að það sparar bæði tíma og fjármagn. Eftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki sinnt því sem skyldi af því að heimildin er fyrir hendi. Og af hverju? Þegar fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins eru skoðuð sést að leynt og ljóst hefur verið dregið úr framlögum til eftirlitsins síðustu ár. Það segir ákveðna sögu.
Hin aðkallandi spurning er: hvað geta stjórnvöld gert betur í því að vernda fyrirtæki og heimili landsins gegn fákeppni og okri? Samkeppnislöggjöfin okkar kemur að miklu leyti frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og svo margt annað sem lýtur að hagsmunum almennings. Enn er þó ýmislegt sem við eigum eftir að innleiða í íslensk lög og má þar helst nefna evrópsku skaðabótatilskipunina frá 2014 sem eykur verulega möguleika tjónþola, neytenda og fyrirtækja, til að sækja bætur vegna samkeppnisbrota. Biðin eftir þessum réttarbótum er of löng.
Baráttan gegn sjúkri samkeppni er eitt þeirra mörgu brýnu verkefna sem bíða nýrrar ríkisstjórnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. september