12 sep Stöðnun í orkumálum hefur afleiðingar
Núverandi ríkisstjórn setti sér háleit markmið um full orkuskipti fyrir árið 2040. Sérfræðingar efuðust reyndar um að markmiðin væru raunsæ, ekki síst þar sem nokkuð virðist í land þegar kemur að tæknilausnum í alþjóðasamgöngum.
Eitt er þó að setja sér markmið en annað að ná þeim fram. Til þess þarf skýra sýn og forystu. Síðustu sex ár hafa fyrst og fremst einkennst af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sem er sundruð í orkumálum, eins og reyndar flestum þeim málum sem skipta almenning miklu. Og á því tapar allt íslenskt samfélag.
Tjónið blasir núna við. Neikvæð áhrif á loftslagið sem og mikill samfélagslegur kostnaður vegna þess að uppbygging á nýrri grænni orkuvinnslu hefur verið á hraða snigilsins. Hvað þýðir þetta í reynd fyrir Ísland? Á hverju ári glatast dýrmæt tækifæri; tækifæri til nýsköpunar og sjálfbærrar atvinnuuppbyggingar sökum veikburða raforkukerfis og skorts á orku. Íslenskir frumkvöðlar og alþjóðleg fyrirtæki leita á önnur mið. Ríkisstjórn sem spólar í hjólförunum í orkumálum mun raða sér aftarlega hvað varðar nýsköpun og samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. Aðgerðaleysið hefur afleiðingar.
Íslenskt atvinnulíf hefur mikinn metnað fyrir því að taka afgerandi skref í orkuskiptum. Hægagangurinn í uppbyggingu nýrrar raforkuvinnslu er hins vegar raunveruleg hindrun. Alþjóðlegt samkeppnisforskot íslenskra fyrirtækja er í hættu ef þau verða eftirbátar erlendra fyrirtækja sem njóta stuðnings og skilnings sinna ríkisstjórna um orkuskipti og öflun grænnar orku. Að Ísland með sínar auðlindir sé í þeirri stöðu er með ólíkindum.
Heimili landsins hafa síðan verið skilin eftir sem afgangsstærð í baráttunni um þá litlu grænu raforku sem bætist við kerfið á næstu árum. Allt er þetta í boði stjórnvalda sem virðast fyrst og fremst stunda það að forðast ákvarðanir og tefja framfaramál. Metnaður í orkuskiptum er augljóst hagsmunamál og jafnréttismál fyrir byggðir landsins.
Það þarf að ryðja úr vegi hindrunum og flýta framkvæmdum. Hið opinbera þarf að vinna hraðar og afgreiða þau leyfi sem hafa verið í umsóknarferli mánuðum og jafnvel árum saman. Í framhaldi þarf að taka leyfisveitingaferli til endurskoðunar og auka skilvirkni. Á komandi þingvetri ætti einnig að ljúka uppfærslu á skattlagningu orkuvinnslu sem tryggir sveitarfélögum skýran fjárhagslegan ávinning af uppbyggingu raforkuvinnslu á sínu svæði.
Að lokum verður ríkisstjórnin að vakna og átta sig á því að þau geta ekki eingöngu verið áhorfandi og álitsgjafi þegar kemur að orkuskiptum atvinnulífsins. Við þurfum skýra hvata og ívilnanir sem verðlauna þau fyrirtæki sem draga úr losun.
Ef pólitískur vilji er til verksins þá má vel útfæra þessi skref samhliða fjárlögum strax í haust. Og með því má koma hreyfingu á orkuskiptin. Fyrir þessum aðgerðum mun Viðreisn tala á Alþingi í vetur. Það er augljóst hagsmunamál alls almennings að Ísland sýni forystu í þessum málaflokki. Ávinningurinn hvað varðar loftslag, innviði, atvinnulíf og byggðir landsins blasir einfaldlega við.