Til í samtalið við bændur

Ég fór á fund Bændasamtakanna á Selfossi á dögunum. Þetta var lokafundur í fundaröð undir yfirskriftinni: Tökum samtalið.

Mér skildist að aðeins tveir þingmenn hafi komið til þessara funda, en var alveg sátt við að Viðreisn skuli hafa átt helming þeirra. Ég veit að grundvallarhugmyndir Viðreisnar um atvinnufrelsi og alþjóðasamvinnu hafa ekki í einu og öllu átt upp á pallborðið hjá öllum bændum.

Afstaða Viðreisnar er skýr um að við viljum sjá íslenskan landbúnað dafna og við höfum stutt þann fjárhagslega stuðning sem bændur njóta á fjárlögum. Við erum því sannarlega til í samtalið við bændur.

Umfram allt trúi ég því að hreinskilni sé betri í því samtali en gylliboð.

Áhyggjur af afkomu

Það kom ekki á óvart að áhyggjur af afkomu bænda voru hinn þungi undirtónn. Vandinn er að hluta tímabundinn vegna stöðu efnahagsmála. En vandinn á líka kerfislegar rætur, bæði í landbúnaðarkerfinu sjálfu og peningakerfinu.

Einn fyrrverandi landbúnaðarráðherra, reyndar sá sem lengst hefur setið á þeim stóli á þessari öld, dró á fundinum upp mjög dökka mynd af framtíðinni. Að öllu óbreyttu gætu sú spá ræst.

Ég vil gjarnan taka þátt í samtali sem miðar að því að finna leiðir til að koma í veg fyrir að sú kolsvarta mynd verði að veruleika – og helst að samtalið verið þannig að markmið okkar um öflugan landbúnað verði sú mynd sem rætt er um.

Við ættum að geta komist að sameiginlegri niðurstöðu um þá þætti sem núverandi stefna er að stranda á og bændur finna rækilega fyrir. Svo er ég til í að rökræða mismunandi leiðir og hlusta á rök annarra.

Mig langar til að opna þetta samtal með því að varpa fram spurningum varðandi tvö atriði sem fram komu á fundinum.

Fjármælaáætlun gerir ekki ráð fyrir auknum fjárframlögum

Formaður Bændasamtakanna greindi frá því að tólf milljarða króna vantaði inn í reksturinn. Hann sagði jafnframt að úrbætur fengjust ekki við endurskoðun búvörusamninga á þessu ári. Því yrði að leggja allt traust á nýja búvörusamninga eftir þrjú ár.

Mín spurning er þessi: Er raunhæft að stóla á meira svigrúm ríkissjóðs eftir þrjú ár?

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir auknum heildarframlögum. Við sjáum þannig að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa svarað spurningunni afdráttarlaust neitandi. Það er ekki gert ráð fyrir auknum fjárframlögum af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þriggja.

Minn flokkur getur lofað einörðum stuðningi við að núverandi styrkir haldist að verðgildi. En það væri ómarktækt gylliboð ef ég gæfi undir fótinn með aukin útgjöld án samtalsins um nýjar hugmyndir og sóknarfæri fyrir landbúnaðinn. Slík pólitík er ekki heiðarleg og hjálpar engum, hvorki landbúnaðnum né öðrum.

Vandinn er fyrir hendi. Lausnin liggur ekki á borðinu. Mér sýnist því að samtal um hugmyndir sé nauðsynlegt.

Kerfislegt óréttlæti 

Ein leið er að kanna hvort unnt er að minnka kostnað. Formaður Bændasamtakanna upplýsti að vaxtahækkanir að undanförnu hafa aukið kostnað bænda um 5,5 milljarða króna. Vaxtahækkunin ein er helmingurinn af því sem vantar inn í reksturinn. Einnig hefur hann bent á að við stöndum frammi fyrir áskorun um hvernig við látum nýliðun í íslenskum landbúnadi raungerast. Þar vanti hagstæð lánakjör en fjármagnskostnaður sé þar verulega íþyngjandi þáttur.

Jafnvel ég, húsmóðir í Hafnarfirði og Ölfusinu, sé í hendi mér að það getur ekki gengið upp að greiða 40 krónur í vexti af hverjum mjólkurlítra sem framleiddur er. Það endar með ósköpum.

Að því kemur að vextir lækka aftur. Þeir verða hins vegar alltaf þrefalt hærri en hjá grannþjóðunum sem neytendur horfa til með verðsamanburð. Það sama gildir um bændur. Sú væntanlega staða gengur því heldur ekki upp.

Sjávarútvegurinn sætti sig ekki við slíka samkeppnismismunun. Hann fékk því heimild stjórnvalda til að yfirgefa krónuna og tekur þar af leiðandi ekki þátt í þeim umfram kostnaði sem henni fylgir.

Með því er landbúnaðurinn kominn í þá stöðu að bera byrðar sem stórútflutnings atvinnugreinarnar sleppa við, sjávarútvegurinn, stóriðjan, Landsvirkjun, stærstu ferðaþjónustufyrirtækin og þekkingariðnaðurinn.

Með landbúnaðinum í þessum báti eru heimilin og minni fyrirtæki. Þessi þungi vaxtakostnaður er þess vegna réttlætismál að leiðrétta.

Mögulegar leiðir 

Er það náttúrlögmál að leggja vaxtabyrðar á landbúnaðinn sem aðrar atvinnugreinar í landinu sleppa við? Mitt svar er nei.

Bændur vita að viljum tryggja jafna aðstöðu allra með því að taka upp samkeppnishæfan gjaldmiðil. Ég þykist vita að almennt eru bændur ekki endilega sannfærðir. Þá er spurningin – Eru aðrar leiðir færar?

Ég sé ekki fyrir mér ríkisstjórn sem snúa mun til baka og innleiða pólitíska ákvörðun vaxta. Eftir sex ár væru núverandi stjórnarflokkar búnir að því ef þeir teldu það fært.

Ég veit þó ekki um neinn stjórnmálaflokk sem vill ná jöfnuði með því að skerða samkeppnisstöðu helstu útflutningsgreinanna. Það væri eins og að taka fóðrið frá bestu mjólkurkúnni.

Við erum sammála um að ná þarf vaxtakostnaðinum niður. Ég er tilbúin að hlusta á aðrar hugmyndir en ég fer ekki ofan af því að mismununin milli bænda og útvegsbænda er óréttlát og efnahagslega óhagkvæm bæði fyrir landbúnaðinn og íslenskt samfélag í heild.

Tölum meira saman

Ég vildi þakka fyrir áhugaverðan fund á Selfossi og gott boð um að taka samtalið lengra með því að draga þessi afmörkuðu álitaefni fram strax í byrjun. Vonandi getum við í framhaldinu átt málefnalegt samtal um þau og málefni landbúnaðar í stærra samhengi.  Orð eru til alls fyrst.

Stundum finnst mér að umræðan snúist bara um tvennt: Endalokin eða öflugasta landbúnað í heimi. Er ekki rétt að byrja einhvers staðar þarna á milli?

 

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu þann 7. september 2023