04 sep Vegasalt eða reiptog
Á Safnaeyjunni í hjarta Berlínar á bráðum að afhjúpa minnisvarða um frelsi og samstöðu til að minnast sameiningar Þýskalands eftir kalda stríðið. Þetta er risaverk, minnir á aflanga skál eða bát sem verður um sex metrar á hæð og 50 metrar á lengd. Þegar um 20 manns safnast saman á annarri hliðinni mun minnisvarðinn byrja að hallast. Ef um 50 manns safnast þar saman mun hann fara niður um 1,5 metra. „Við erum fólkið. Við erum ein þjóð“ verður skrifað á palli minnisvarðans.
Hugmyndafræðin á bak við verkið er í stuttu máli sú að það sé félagslegur skúlptúr sem lifni við og komist á hreyfingu þegar fólk safnast saman og á samskipti sín á milli. Einhvers konar vegasalt. Ef hallinn verður of mikill stefnir hins vegar í óefni. Samstaða fólks komi hlutum þannig á nauðsynlega hreyfingu, öfgar sökkvi bátum.
Íslenska sumarið hefur verið gegnsýrt af reiptogi stjórnmálanna um hvalveiðar. Til að gæta nákvæmni þá voru það fyrst og fremst þingmenn stjórnarmeirihlutans sem röðuðu sér á kaðalinn. Nú eru kaflaskil og þess má vænta að málið verði töluvert rætt á þingi á komandi vikum og mánuðum. Spurningin er hvort við beitum þar hugmyndafræði vegasaltsins eða reiptogsins. Samvinna eða sundrung?
Með fullri virðingu fyrir hvalveiðimálinu þá hvíla brýnni úrlausnarefni á landsmönnum. Hafi einhverjir látið sig dreyma um að áskoranir sem varða sturlaða vaxtaáþján íslenskra heimila og fyrirtækja, himinháa verðbólgu og brotalamir í heilbrigðiskerfinu okkar myndu hverfa í sumar þá voru það alltaf mjög óraunhæfir draumar. Önnur risamál eru líka mjög aðkallandi. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðu í orku- og auðlindamálum og í húsnæðismálum.
Allt eru þetta mál sem stjórnmálin hafa togast á um og það reiptog hefur oftar en ekki verið fyrst og fremst á milli stjórnarflokkanna eins fráleitt og það nú er. Ef ríkisstjórnin var ekki mynduð um lausnir á þessum kjarnamálum sem varða þjóðina svo miklu, um hvað var hún þá mynduð?
Viðreisn vill koma málum á hreyfingu. Nota vegasaltið. Í þeim anda hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður flokksins óskað eftir breiðu samtali formanna allra flokka á Alþingi til að kanna möguleikann á breiðri samstöðu um löggjöf um útlendinga. Enn eitt málið sem stjórnvöld hafa togast á um.
Samskipti og jafnvægislist þýða ekki endalok pólitískrar hugmyndafræði. Þvert á móti. Það er gamaldags kraftakeppni sem gefur mismunandi hugmyndafræði lítið sem ekkert pláss. Því þurfum við að breyta.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. september