10 okt Gabríel nýr forseti Uppreisnar
Gabríel Ingimarsson var kjörinn nýr forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, á aðalfundi félagsins sem fram fór síðustu helgi. Gabríel er 24 ára viðskiptafræðingur og hefur verið virkur í starfi Viðreisnar og Uppreisnar síðastliðin tvö ár. Hann var um tíma formaður utanríkisnefndar Viðreisnar og tók þátt í málefnaráði Viðreisnar sem fulltrúi alþjóða og utanríkismála.
Þá var Draumey Ósk Ómarsdóttir kjörinn varaforseti. Kosið var um fimm meðstjórnendur í framkvæmdastjórn og hlutu kjör þau Emma Ósk Ragnarsdóttir, Einar Geir Jónasson, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Máni Þór Magnason og Stefanía Reynisdóttir.
“Ég er sannfærður um að frjálslynd stefna sé vel í stakk búin að kljást við brýn málefni samtímans. Heilbrigðiskerfið hreinlega kallar eftir blönduðum rekstri, fasteignamarkaðurinn er í fjötrum regluverks og útgjaldablæti yfirvalda er komin út fyrir öll velsæmismörk – þrátt fyrir hækkun áfengisgjaldsins – og ungu fólki er sendur reikningurinn. Ég er spenntur að leiða Uppreisn áfram af krafti næsta árið, en falleg fyrirheit eru einskis virði ef þeim fylgir ekki áætlun. Þess vegna verður með mínum fyrstu verkum að hefja stefnumótandi vinnu fyrir félagið og undirbúa okkur fyrir kosningar sem gætu verið á næsta leyti ef marka má uppátæki ýmissa ráðherra hér á síðustu misserum. ” segir Gabríel Ingimarsson.
Árleg Uppreisnarverðlaun veitt
Á aðalfundinum voru hin árlegu Uppreisnarverðlaun veitt í sjötta sinn fyrir framúrskarandi og óeigingjarnt starf í þágu frelsis, jafnréttis og opnara samfélags. Verðlaunin eru veitt í tvennu lagi. Annars vegar til einstaklings og hins vegar til fyrirtækis, stofnunar eða samtaka.
Einstaklingsverðlaunin voru veitt Ingileif Friðriksdóttur fyrir að auka sýnileika hinsegin fólks í samfélaginu. Í gegnum Hinseginleikann og viðamikla fræðslu hefur Ingileif verið mikilvæg í baráttunni fyrir frelsi einstaklingsins til að lifa sínu lífi eftir eigin höfði.
Uppreisnarverðlaunin í flokki fyrirtækis, stofnunar eða samtaka voru veitt Hopp fyrir framlag sitt til aukins valfrelsis fólks í samgöngum ásamt því að auka samkeppni á leigubílamarkaði. Innkoma Hopp á leigubílamarkaðinn opnaði á samkeppni sem er neytendum ótvírætt til góða. Á rafhlaupahjóla-markaði hefur Hopp rutt brautina fyrir nýjum og skemmtilegum samgöngumáta sem hefur sett nýjan brag á borgina og fjölda annarra sveitarfélaga um land allt. Eyþór Máni Stefánsson, verkefnastjóri Hopp, tók á móti verðlaununum.