06 okt „Jú, við ætlum að búa áfram saman í tvö ár, en sæll hvað ég þoli þessa dömu ekki”
Mér hefur stundum fundist ríkisstjórnin eins og óhamingjusömu hjónin sem stöðugt rífast úti á svölum. Allt hverfið hlustar algjörlega óumbeðið.
Í vikunni náðu þessar heimiliserjur svo nýjum áfanga þegar einn ráðherra fann það út að ráðstefnugestir staddir á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu þyrftu mest að heyra væri nöldur eða „rant“ um hvað samstarfsráðherra hennar er glataður.
Skilaboðin: „Jú, við ætlum að búa áfram saman í tvö ár en sæll hvað ég þoli þessa dömu ekki.”
Skilaboðin flutt í mikrafón í stórum veislusal.
Það er auðvitað allt eðlilegt við þetta, eða hvað?
Það má brosa að þessu alkula ríkisstjórnarsamstarfi en vandamálið fyrir fólkið í landinu er að öll orka ríkisstjórnar Íslands fer í þessar innbyrðis erjur. Á meðan gerist ekkert annað.
Fólkið og fyrirtækin í landinu finna fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Þetta eru málin sem fólk er að hugsa um. Hvert sem komið er snýst umræðan um þetta. Ekki um það hver þolir hvern minnst í ríkisstjórninni.
Fólk þarf forystu og stefnufestu en ekki þessi endalausu upphlaup. Ríkisstjórn sem er svo vandræðalega sundruð getur ekki lagt neinar lausnir á borð fyrir fólkið í landinu. Í dag er þessi stjórn sem gerir orðið lítið annað en að framkalla vandræðalegar senur stór hluti af vanda fólksins í landinu.
Og það verður hún samkvæmt dagskrá í heil tvö ár í viðbót.
Greinin birtist fyrst á Viljanum 6. október 2023