08 nóv Millistéttin er skilin eftir
Ekkert verkefni stjórnmálanna er stærra en glíman við verðbólgu og ógnarháa vexti. Hvert sem komið er talar fólk um dýrtíðina. Afborganir af óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum hafa hækkað margfalt og eina bjargráðið er að flytja sig yfir í séríslensk verðtryggð lán þar sem verðbólga leggst ofan á höfuðstól láns og eignir skerðast.
Athygli ríkisstjórnarinnar ætti að vera á þessu verkefni. Ríkisstjórnin er hins vegar hætt að hlusta á fólkið í landinu því öll athygli hennar fer í innbyrðis átök. Daglega þarf almenningur að hlusta á vandræðalegar fréttir af karpi innan ríkisstjórnarinnar í stað þess að heyra hvernig hún ætlar að koma böndum á verðbólgu. Svo sundruð stjórn getur ekki náð árangri. Fjárlagafrumvarpið, sem er mikilvægara í ár en oft áður, er hlutlaust gagnvart verðbólgunni. Hlutlaust segir í sjálfu sér bara að ríkisstjórn gerir ekki illt verra. Í krefjandi aðstæðum dugar það ekki til.
Í sterkri umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið varpar bandalagið ljósi á áhugaverðar staðreyndir um veruleika almennings. Kaupmáttur meðallauna hefur sveiflast fjórum sinnum meira sl. 20 ár á Íslandi en kaupmáttur innan OECD-landa. Verðbólga jókst um helming milli ágústmánaða 2022 og 2023 sem er einsdæmi. Hér verður að þora að horfa á meinsemdina sem einkennir íslenskt samfélag; óstöðugleika hagkerfisins. Þessi íslenski veruleiki flækir kjaraviðræður.
Almenningur er langþreyttur á ástandinu. Stýrivextir eru rúmlega tvöfaldir á við nágrannalönd. Fólk sem nýlega keypti fasteign og er með hlutfallslega mikil útgjöld vegna barna og námslána finnur rækilega fyrir ástandinu. Þetta er millistéttin á Íslandi. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar geymir hins vegar engin svör fyrir þetta fólk. Þessi hópur er skilinn eftir.
Viðreisn vill að í því ástandi sem núna ríkir beiti stjórnvöld vaxtabótum, barnabótum og húsnæðisbótum hærra upp tekjustigann en verið hefur. Tímabundið úrræði í ljósi þess að millistéttin hefur tekið á sig þungt högg vegna vaxtahækkana. Það er einfaldlega réttlætismál. Opinberir sjóðir eru hins vegar ekki botnlausir og við eigum að stefna að því að komast út úr því ástandi að ríkið þurfi að niðurgreiða vaxtakostnað.
Val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat. Það er pólitísk ákvörðun að halda sig við krónuna. Ríkisstjórn sem ver óbreytt ástand þarf að svara hvers vegna henni þykir réttlætanlegt að láta heimilin taka á sig þann mikla kostnað sem fylgir íslensku krónunni. Á Íslandi búa í dag tvær þjóðir: Sú sem lifir í krónuhagkerfinu og stórfyrirtækin sem standa fyrir utan það og gera upp í evru og dollara. Það er skiljanlegt að stórfyrirtæki vilji starfa í öruggara umhverfi og njóta betri lánskjara. En ætti það ekki að eiga við um þjóðina alla?