27 des Nýtum frelsið fallega
Enn eitt árið naut ég þeirrar lífsins lukku að eiga dásamlegar og friðsælar stundir um jólin með fjölskyldu og vinum. Það er sannarlega ekki sjálfgefið. Þessi jól sækir hryllingur mannskæðra átaka víða um heim sterkt á hugann.
Í Úkraínu heldur fólk nú sín önnur jól í skugga innrásar Rússa sem hófst í febrúar 2022 og var knúin áfram af ótta Pútíns Rússlandsforseta við frelsi nágrannaþjóðar og rétt hennar til að ráða sér sjálf. Augljóst er að stríð Pútíns er ekki bara við Úkraínu heldur er frelsi næstu landa líka í húfi. Það er því ekki að undra að Evrópa og Bandaríkin hafi veitt Úkraínu mikilvæga aðstoð frá upphafi innrásarinnar. Eftir því sem stríðið dregst á langinn er hins vegar hætta á að dýpra verði á stuðningnum vegna kostnaðar, vegna átaka um innanríkismál einstaka landa og vegna stríðsátaka annars staðar í heiminum. Þannig hafa til dæmis Bandaríkjamenn dregið að verða við óskum um frekari fjárstuðning til Úkraínu og öfgaafturhaldið í stól forsætisráðherra Ungverjalands tefur frekari fjárstuðning Evrópusambandsins.
Fyrir botni Miðjarðarhafs hertu svo Ísraelar árásir sínar á Gasa yfir jólin og ekkert lát virðist ætla að verða á þeim skelfilegu drápum sem þar eiga sér stað. Né heldur virðist lausn vera í sjónmáli á því hvernig þjóðirnar tvær, Ísrael og Palestína, geta lifað saman. Ef ekki í sátt og samlyndi, þá að minnsta kosti án skelfilegra grimmdarverka og drápa sem hófust að þessu sinni með hræðilegri hryðjuverkaárás Hamas á óbreytta borgara í Ísrael í byrjun október.
Nú sjást merki þess að átökin á Gasa séu farin að breiðast út til annarra landa. Þannig hafa borist fréttir af því að Bandaríkjamenn og Ísraelsmenn hafi gert árásir á íranskar herdeildir í Sýrlandi og Írak en Íranar hafa verið dyggustu stuðningsmenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna. Írösk stjórnvöld hafa fordæmt árásirnar sem brot gegn fullveldi Íraks.
Það er því ekkert sérstaklega bjart yfir árinu 2024 á alþjóðavettvangi og það er ekki að undra að Ísland, líkt og aðrar vestrænar lýðræðisþjóðir, leggi vaxandi áherslu á öfluga samvinnu í öryggis- og varnarmálum við nágranna- og vinaþjóðir. Lítil, vopnlaus, friðsöm þjóð á norðurhjara veraldar getur líka lagt sitt af mörkum með því að nota rödd sína til að tala fyrir friðsamlegum lausnum, tala fyrir gildum lýðræðis og mannréttinda og með því að veita alla þá aðstoð sem okkur er unnt.
Nú líður að nýju ári. Það er ekki sjálfgefið að upplifa það sem frjáls, friðsæl og fullvalda þjóð. Nýtum það fallega.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. desember