11 jan Einhverjir verða að gjalti
Umræður stjórnarþingmanna og ráðherra um álit Umboðsmanns Alþings á embættisathöfnum matvælaráðherra hafa dýpkað stjórnarkreppuna.
Boltinn í fangi VG
Formaður þingflokks sjálfstæðismanna segir að áfellisdómurinn þurfi að hafa afleiðingar. Formaður þingflokks framsóknarmanna tekur nú í svipaðan streng.
Báðir þingflokkar bíða þó eftir því að þingflokkur VG taki á málinu. Athafnaleysi dugi ekki.
Þingflokkur VG telur að Svandís Svavarsdóttir hafi sýnt pólitískt hugrekki. Þingmennirnir vita að verði hún fórnarlamb hugsjóna sinna í hugskoti kjósenda VG yrði hún samstundis ótvíræður andlegur endurreisnarleiðtogi þeirra.
Nú er það svo að áfellisdómar Umboðsmanns Alþingis leiða ekki sjálfkrafa til afsagnar. Það fer eftir mismunandi aðstæðum í hverju tilviki. Ásetningur, hirðuleysi og grandleysi skipta þar máli.
Einstök málsvörn
En þetta mál er einstakt og ólíkt öllum öðrum. Ráðherra grípur til að mynda ekki til varna með því að tefla fram lagarökum, sem mildað gætu áfellisdóminn.
Þvert á móti beitir ráðherra þeim málsbótarökum að hvalveiðilögin frá 1949 séu úrelt og stangist á við pólitíska sannfæringu hennar um dýravelferð. Brýna nauðsyn hafi borið til að setja reglugerð þótt lagastoð skorti í úreltum lögum.
Í raun segir hún því að um ásetningsbrot hafi verið að ræða. Ráðherra gengur þannig lengra en umboðsmaður. Þótt hann útiloki ekki ásetning fullyrðir hann ekkert þar að lútandi.
Þetta er augljóslega ekki eftir á skýring. Ráðherra vissi að ákvörðunin byggði ekki á lögum.
Lög um ráðherraábyrgð
Nú get ég vel fallist á að hvalveiðilögin séu barn síns tíma. Rétta leiðin er þá að leggja fyrir Alþingi tillögur um breytingar.
Ranga leiðin er að taka löggjafarvaldið í sínar hendur. Með því að ráðherra ákvað vísvitandi að fara þá leið hefur hún sjálf fellt málið undir lög um ráðherraábyrgð.
Embættismissir er fremur mild afleiðing brota á ráðherraábyrgðarlögunum.
Hneykslan skárri en athlægi
Þegar vægari áfellisdómur Umboðsmanns gagnvart þáverandi fjármálaráðherra féll bjó ríkisstjórnin sjálf til það fordæmi að ráðherrastólaskipti væru nægjanleg agaviðurlög.
Það fordæmi virðist hafa farið öfugt ofan í þjóðina.
Þingmenn VG hafa greinilega dregið þá ályktun að skárra sé að kalla yfir sig hneykslan en athlægi.
Siðferðilegar undirstöður reistar á sandi
Flestir talsmenn stjórnarflokkanna hafa þann fyrirvara að svo geti farið að ekki verði tekið á máli matvælaráðherra af því að ríkisstjórnin þurfi að glíma við lausn kjarasamninga.
Þá er á það að líta að ríkisstjórn, sem ekki getur tekið á grófu embættismisferli ráðherra samhliða lagasetningu vegna kjarasamninga, er of veik til að rísa undir nafni.
Hitt er þó verra að afsökun af þessu tagi myndi staðfesta að siðferðilegar undirstöður ríkisstjórnarsamstarfsins væru reistar á sandi.
Í þessu sambandi er rétt að minna á að samkomulag er um það í núverandi ríkisstjórn að ráðherrar dæmi sjálfir í eigin sök þegar upp koma álitamál vegna siðareglna. Þær eru því dautt plagg.
Hættuástand í stjórnsýslunni
Matvælaráðherra segist hafa fengið lögfræðilega ráðgjöf embættismanna. Sama gerði fyrrverandi fjármálaráðherra. Hvorugur ráðherranna hefur þó birt dagsett skjöl þessu til staðfestingar.
Greini ráðherrarnir rétt frá bendir það til þess að annað hvort sé alvarlegur skortur á hæfum lögfræðingum í ráðuneytunum eða þeir þora ekki að tala hreint út við ráðherra.
Sé þetta svo eru brestirnir í stjórnsýslunni svo alvarlegir að segja má að þar ríki hættuástand.
Víki matvælaráðherra ekki ættu embættismennirnir því að víkja, ef engar afleiðingar eru óhugsandi.
Ögrun eða friðkaup?
Hitt er eins líklegt að afleiðingarnar verði engar. Forsætisráðherra á þá tvo kosti:
Annar er sá að stilla þingmönnum Sjálfstæðisflokksins upp við vegg og sjá hvort þeir verði ekki að gjalti í atkvæðagreiðslu um vantraust.
Hinn er sá að setja öryggið á oddinn og fara í friðkaup fyrir atkvæðagreiðsluna.
Hugsjónir matvælaráðherra yrðu þá skiptimyntin. Framhald hvalveiða yrði tryggt og allar tillögur, sem máli skipta, um breytingar á fiskveiðistjórnun settar ofan í skúffu. Lítil táknræn tilslökun í orkumálum gæti svo verið bónustala. Þá yrðu þingmenn VG að gjalti.