17 jan Hlýjar hugsanir og skýr svör
Síðastliðinn sunnudag vorum við öll með öndina í hálsinum, þar sem við fylgdumst með náttúruhamförunum á Reykjanesskaga og vonuðum það allra besta fyrir Grindvíkinga og Grindavík. Þetta var einn af þessum dögum þar sem við vissum öll að hlutirnir yrðu ekki samir á ný. Eldgos innan bæjarmarka Grindavíkur breytti öllu.
Það er erfitt að setja sig í spor Grindvíkinga. Að hafa flúið heimili sitt fyrir rúmum tveimur mánuðum og lifa í algjörri óvissu um hvenær eða hvort bærinn verði öruggur aftur. Að horfa á heimili brenna í beinu streymi og hraun renna yfir svæði sem þau hafa alltaf tengt við öryggi og hlýju. Að vera úthýst frá heimili sínu án þess að vita hvert framhaldið verður. Að vera föst í hringiðu áfalla sem ekki sér fyrir endann á.
Náttúran er okkur hér á landi mjög gjöful á margan hátt. En hún getur líka verið grimm og við finnum reglulega fyrir vanmætti okkar. Svo er klárlega núna. En það er verk að vinna. Á meðan haldið er áfram að byggja upp varnargarða gegn náttúruöflunum verðum við að lina þjáningar Grindvíkinga og gefa þeim einhvern fyrirsjáanleika sem fyrst.
Fólk er vanmáttugt og sorgmætt vegna þessara náttúruhamfara og afleiðinga þeirra. Það má aldrei vanmeta hversu mikilvægt það öryggi sem felst í heimilinu er okkur. Verkefnið fram undan er hvorki einfalt né auðvelt en með samstilltu átaki getum við brugðist við á þann hátt sem gerir þessa erfiðu og sáru stöðu eins léttbæra fyrir íbúa Grindavíkur og mögulegt er. Besta leiðin til þess er að hlusta á óskir Grindvíkinga og finna leiðir til að koma til móts við þær eins og mögulegt er. Við þurfum að hlúa að fólki sem á um sárt að binda á sama tíma og við ráðumst í verkefni sem lúta að húsnæði fólks til skemmri og lengri tíma, námi barna og unglinga og tómstundaiðkun. Staða fyrirtækja á svæðinu og framtíð þeirra er líka mikilvægt úrlausnarefni.
Ríkisstjórnin þarf að leggja spilin á borðið. Ákvarðanir mega ekki dragast mikið enda eru það eðlilegar kröfur til stjórnvalda að hafa tilbúin viðbrögð í grófum dráttum við þeirri svörtu sviðsmynd sem raungerðist um helgina. Til þess hafa viðvaranirnar verið nægar síðustu vikur og mánuði.
Við höldum áfram að senda Grindvíkingum hlýjar hugsanir en skýr svör um næstu skref verða að fylgja með.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðið 17. janúar