26 jan Ríkisstjórnin í Undralandi
Í ríflega sex ár hefur ríkisstjórnin sagst ætla að styrkja heilsugæsluna. Þetta er ítrekað í stjórnarsáttmálum Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar frá 2017 og 2021. Samkvæmt þeim var ætlunin að gera þetta með því að auka þjónustuna og fjölga heilsugæslustöðvum til að minnka álagið á aðra viðkomustaði á borð við bráðamóttöku Landspítala.
Það var og.
Það er tímabært að bjóða stjórnvöld velkomin til raunheima þar sem allur almenningur býr. Raunheima þar sem illmögulegt er að fá tíma á heilsugæslunni, þar sem víða hefur þurft að loka fyrir tímaskráningar og fólki einfaldlega bent á að droppa við og freista gæfunnar. Það komist einhvern tíma að. Þau sem ekki geta tekið þann séns leita eðlilega á bráðamóttöku næsta spítala. Eins og það sé á álagið þar bætandi.
Það sem þessari ríkisstjórn hefur tekist að gera er að setja meiri fjármuni inn í kerfið. Það sem henni hefur mistekist er að nýta þá fjármuni vel. Þetta er í aðra röndina orðið einkennismerki flokkanna þriggja og það er saga til næsta bæjar þegar forsvarsfólk heilbrigðisstofnana sem lengi hefur kallað eftir og rökstutt þörf á meiri fjármunum er nú farið að óska eftir almennilegri stýringu á kerfinu. Án slíkrar stýringar sé auknum fjármunum einfaldlega sóað.
Þegar Lísa í Undralandi spurði köttinn til vegar spurði hann á móti; hvert ertu að fara? Ég veit það ekki, svaraði Lísa. Þá skiptir ekki máli hvaða leið þú ferð, sagði kötturinn. Það er kominn tími til þess að stjórnvöld hlusti á kisu. Hún gengur ekki lengur þessi þreytta afsökun um ólíka stjórnarflokka sem hafa ekki sömu sýn á hlutina og blablabla. Það er öllum sama. Fólk vill heilbrigðisþjónustu sem virkar og til þess þurfa stjórnvöld að hafa sameiginlegan skilning á því hvað virki.
Hvað á það að þýða að á sama tíma og fólk bíður mánuðum saman eftir tíma á heilsugæslu þurfa heimilislæknar sem þar starfa að verja stórum hluta tíma síns í að skrifa vottorð og tilvísanir? Á Læknadögum fyrr í þessum mánuði kom fram að fimm stöðugildi heimilislækna fara í að skrifa tilvísanir til sjúkraþjálfara og önnur þrjú í tilvísanir til barnalækna svo dæmi séu tekin. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að engin önnur þjóð notar þessa eftirsóttu starfskrafta sem umferðarljós.
Sóun er vissulega saga þessa ríkisstjórnarsamstarfs. En hér er of langt gengið. Notendur heilbrigðisþjónustunnar eiga betra skilið. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar á betra skilið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. janúar