Ótrúleg fækkun lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu

Fréttir berast af því að ráðist sé að lögreglumönnum og þeim hótað. Að lögreglumenn hafi þurft að flýja heimili sín vegna líflátshótana. Saksóknarar hafi þolað líflátshótanir.

Í langan tíma hefur réttarkerfið verið afgangsstærð í stjórnarráðinu.

Á höfuðborgarsvæðinu eru lögreglumenn svo fáir að það hefur áhrif á störf og öryggi þeirra.

Þetta sést líka á því að Landréttur mildar aftur og aftur dóma í alvarlegustu sakamálum því kerfið hefur ekki getað unnið á nægilegum hraða. Þetta sést þegar Fangelsismálastofnun hefur ekki náð að kalla dæmda menn inn í fangelsi. Dómar hafa fyrnst í ofbeldisbrotum og kynferðisbrotum. Úttekt Ríkisendurskoðunar sýnir svo svart á hvítu hver staðan er innan veggja fangelsa landsins.

Fjöldi lögreglumanna á Íslandi er sjálfstætt vandamál. Hann er vandamál fyrir öryggi landsmanna og öryggi lögreglumanna sjálfra. Um 75-80% hegningarlagabrota á landinu koma til kasta lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hingað koma auk þess næstum allir ferðamenn sem sækja landið heim. Hér er þung umferð. Miðborginni fylgir næturlíf. Öll erlend sendiráð eru á höfuðborgarsvæðinu og stjórnsýsla landsins. Eins og gildir um allar höfuðborgir eru verkefnin mörg, fjölbreytt og sum hver mjög þung.

Árið 2007 var nýtt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu stofnað. Þá störfuðu þar 339 lögreglumenn. Svæði embættisins nær yfir sjö sveitarfélög og um 250.000 íbúa. Lögreglumenn embættisins voru í fyrra aftur á móti aðeins 297 talsins. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að svo mikil fækkun hafði orðið í lögreglunni á þessu fjölmennasta svæði landsins.

Árið 2022 voru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu um 1,2 lögreglumaður á hverja eitt þúsund íbúa. Til að hlutfallið yrði til svipað og hjá þeim embættum sem eru með næst lægsta hlutfallið á landinu þyrfti að fjölga lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu í kringum 200.

Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur sem sagt fækkað umtalsvert á sama tíma og gífurleg fólksfjölgun hefur orðið og mikil aukning ferðamanna. Og á sama tíma og skipulögð glæpastarfsemi er veruleiki á Íslandi og rannsóknir sakamála flóknari en áður. Það er staðreynd að í öðrum löndum er hlutfall lögreglumanna hærra í höfuðborgum en landsbyggð. Landsbyggðin á Íslandi er þó sannarlega ekki ofalin í þessu sambandi enda er löggæslan yfir landið allt of fámenn. Árið 2020 var fjöldi lögreglumanna á hverja 100 þúsund íbúa árið næst lægstur á Íslandi í samanburði við 32 önnur Evrópuríki.

Ekkert ráðuneyti hefur verið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins lengur en dómsmálaráðuneytið. Sjálfstæðisflokkur hefur farið með völd þar óslitið undanfarinn áratug – og lengur en nokkur annar flokkur þegar sagan er skoðuð.

Þetta ástand getur ekki gengið upp. Og það ætti ekki að líðast. Næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að byggja upp þá grunnþjónustu og innviði sem lögreglan er með því að stórefla löggæsluna.

 

Greinin birtist fyrst á Viljanum 3. febrúar 2024