05 feb Þjónustu í stað átaka
Þetta eru auðvitað mjög ólíkir flokkar!
Hvað ætli við höfum oft heyrt ráðherra og þingmenn stjórnarmeirihlutans fara með þessa þulu sem afsökun fyrir stefnuleysinu.
Viðbrögð við ómarkvissum útgjaldavexti ríkisins: Þessir flokkar eru auðvitað með ólíka stefnu.
Allt í lás í orkumálum: Jú, sjáið til, flokkarnir eru svo ólíkir.
Sundurlyndið í útlendingamálum: Nú eru þetta náttúrlega svo ólíkir flokkar.
Svo eru það heilbrigðismálin. Sennilega hefur engin ríkisstjórn í upphafi ferils síns fengið jafn skýr skilaboð frá þjóðinni um að standa í stykkinu þar. Skattar hér á landi eru háir og þar af fer stór hluti í heilbrigðiskerfið okkar. Eðlilega. Við viljum að fólk njóti góðrar heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags eða búsetu. Þetta er grunnstefið í samfélagssáttmálanum okkar og verður vonandi áfram um ókomna tíð.
Verkefnið er ekki einfalt. Hvorki hér né í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Vaxandi kostnaður og almennur skortur á heilbrigðisstarfsfólki er krefjandi áskorun sem allar þjóðir kannast við. En til þess eru stjórnvöld að taka á því.
Á þeim rúma mánuði sem liðinn er af árinu hafa birst í fjölmiðlum fréttir af því hvernig verulega slæmt ástand á á tilteknum deildum Landspítalans er orðið fáránlega slæmt. Hvernig sjúklingar liggja á göngum og gluggalausri aðstöðu á bráðamóttöku Landspítalans dögum saman. Hvernig eldra fólk er fast á spítalanum vegna skorts á hjúkrunarheimilisrýmum.
Það vantar 200 heimilislækna á landinu og aðeins helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu er með fastan lækni. Bið eftir tilteknum aðgerðum hefur aldrei verið lengri. Hvernig haldið þið að foreldrum barna líði með að bíða í 2-3 ár eftir greiningu, eftir aðstoð? Þetta er langur tími í lífi og þroskaferli barna.
Þetta ástand er ekki til þess fallið að bæta vinnuaðstöðu og vinnuálag heilbrigðisstarfsfólks. Sama fólk og lagði á sig óheyrilegt álag vegna kórónuveirufaraldursins býr enn við það að vera reglulega kallað inn úr fríum vegna manneklu.
Það er hægt að leysa þessi verkefni. Það verður hins vegar ekki gert með tveimur eða þremur ólíkum stefnum á sama tíma heldur með stjórnvöldum sem hafa skýra sýn og sameiginlegan skilning á því hvað virkar. Það þarf að auka fjármagn til að bæta bráðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu og í kjölfarið búa svo um hnútana að fjármagn byggist á faglegri greiningu á þörf og mati á kostnaði innan kerfisins. Þjónusta við fólk á að vera í öndvegi, ekki endalaus átök um hver gerir hvað í kerfinu. Það bíður því nýrrar ríkisstjórnar að treysta stoðirnar fyrir fólkið í landinu.