13 mar Fjármögnunin skiptir víst máli
Það er mikið fagnaðarefni að kjarasamningum hafi verið landað til fjögurra ára. Samningsaðilar virðast líka hafa verið meðvitaðir um ábyrgð sína gagnvart verðbólgu og sýnt hana með því að stilla kröfum sínum í hóf. Þá er sannarlega ekkert við það að athuga að samtök launafólks nýti kraft sinn og þunga til að þrýsta á jákvæðar breytingar í stjórnkerfinu – sama hvort það varðar lækkun opinberra gjalda, niðurgreiðslu skólamáltíða eða kröfu um nýjan gjaldmiðil.
Það sem aftur á móti er athugavert er hversu greiðlega ríkisstjórnin steig inn án þess að gera grein fyrir því hvernig hún myndi fjármagna aðkomu sína. Sama ríkisstjórn og gat ekki reist varnarvegg um Grindavík fyrir 3 milljarða króna án þess að leggja á nýjan skatt ætlar núna að setja 80 milljarða króna næstu fjögur árin í aðgerðir til þess að treysta kjarasamninga.
Tveir mánuðir eru liðnir síðan ríkisstjórnin gaf fyrst út að hún myndi svara kalli verkalýðsforystunnar og Samtaka atvinnulífsins en á þeim tíma hefur þögnin verið algjör um hvaðan peningarnir eigi að koma. Tónninn jafnvel verið að það skipti ekki öllu máli.
Ríkisstjórnin hefur úr þremur kostum (eða ókostum) að velja. Hún getur í fyrsta lagi fjármagnað 80 milljarðana með hærri sköttum. Það þýðir að kjarabætur almennings verða enn rýrari en sem nemur hinum hófstilltu kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Ríkisstjórnin getur í öðru lagi aukið opinbera lántöku, sem er líkleg til að kynda undir verðbólgunni og brenna upp bæði kjarabætur og forsendur samninganna. Í þriðja lagi getur ríkisstjórnin ráðist í aðhald af stærðargráðu sem þessi ríkisstjórn hefur aldrei sýnt vísi að. Hvaða leið, eða blöndu þessara leiða, ríkisstjórnin mun fara er stóra spurningin?
Til að Seðlabankinn geti hafið langþráð vaxtalækkunarferli af alvöru skiptir öllu máli að stjórnvöld svari þessari spurningu og gefi þar með tóninn með það hvort fjármögnunin muni vinna með eða gegn markmiðum um aukinn stöðugleika og lægri verðbólgu.
Ég get ekki skilið við skrif um hina nýgerðu kjarasamninga og markmið þeirra um lægri verðbólgu og lægri vexti án þess að árétta enn og aftur hversu miður það er að ekki hafi verið fallist á tillögu Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambandsins um að fá óháða erlenda aðila til að kanna kosti og galla við upptöku annars gjaldmiðils. Svör formanns Eflingar í Silfrinu síðasta mánudag bera með sér að verkalýðshreyfingin sé ekki samstiga í þessu máli, þrátt fyrir að það gæti orðið heimilunum meiri kjarabót en nokkur samningur milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda.